Innlent

Segir Rannveigu hafa móðgað færeysku þjóðina

MYND/Vilhelm

Jógvan á Lakjuni, samstarfsráðherra Færeyja, segir að Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hafi móðgað færeysku þjóðina með framgöngu sinni í umræðunni um réttindi samkynhneigðra í Færeyjum. Hann sakar jafnframt danska fjölmiðla um óeðlilega neikvæðni í umfjöllun um Færeyjar.

Fram kemur í frétt frá Norðurlandaráði að hart hafi verið sótt að Færeyingum á þinginu vegna réttinda samkynhneigðra og hvatti Rannveig Færeyinga til að taka á málinu og banna mismunun gegn samkynhneigðum. Jógvan benti hins vegar á að í löggjöf annarra norræna ríkja um bann við mismunun væru til dæmis fatlaðir ekki sérstaklega nefndir en þar með væri ekki sagt að mismunun gagnvart þeim væri í lagi.

Enn fremur benti Jógvan á að með því að einblína á þetta eina mál væri verið að draga upp neikvæða og ranga mynd af Færeyjum. Sakaði hann danska fjölmiðla um að hafa sérstaka ánægju af að fjalla um Færeyjar og færeysk málefni á neikvæðan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×