Erlent

Ísraelskar orrustuþotur flugu skjótandi yfir þýskt herskip

Ísraelskar herþotur skutu tveimur skotum um leið og þær flugu lágt yfir þýskt herskip undan ströndum Líbanons, í dag. Þær skutu þó ekki á þýska skipið.

Þýski sjóherinn stjórnar alþjóðlegri friðargæslu við strendur Líbanons og er hlutverk hans meðal annars að koma í veg fyrir vopnasmygl, og hindra frekari átök milli Ísraels og Hizbolla. Þjóðverjar hafa átta herskip í gæsluflotanum.

Ekki er vitað um ástæðu þess að ísraelsku orrustuþoturnar flugu mjög lágt yfir þýska herskipið og hleyptu af skotum. Þoturnar skutu einnig frá sér blysum sem eiga að afvegaleiða loftvarnaeldflaugar sem hugsanlega yrði skotið að þeim.

Yfirvöld bæði í Ísrael og Þýskalandi segja að málið sé í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×