Innlent

Tólf stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í kringum Hvolsvöll

MYND/Róbert

Lögreglan á Hvolsvelli hefur haft í nógu að snúast það sem af er degi við að stöðva ökumenn sem hafa keyrt of hratt. Frá klukkan níu í morgun til fjögur í dag voru tólf ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Suðurlandsvegi.

Var sá sem hraðst ók mældur á 129 km hraða, annar á 128 km hraða og sá þriðji á 125 km hraða. Einn af þessum tólf ökumönnum var mældur á 119 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km/klst og annar á 88 km hraða í gegnum þéttbýli við Hellu þar sem hámarkshraði er 50 km/klst.

Segir á vef lögreglunnar að sem fyrr veki athygli hve hlutfall erlendra ökumanna á bílaleigubifreiðum sé hátt en af þessum tólf ökumönnum sem kærðir hafa verið í dag eru fimm erlendir ökumenn.

Alls hafa 33 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar í síðastliðinni viku og það sem af er sunnudeginum 1. október. Flestir ökumenn ljúka málum sínum með greiðslu sektar strax á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×