Körfubolti

Jay Williams snýr aftur

Jay Williams átti aldrei að geta spilað körfubolta aftur á ævi sinni, en hann er nú að reyna að festa sig í sessi í æfingabúðum hjá New Jersey Nets
Jay Williams átti aldrei að geta spilað körfubolta aftur á ævi sinni, en hann er nú að reyna að festa sig í sessi í æfingabúðum hjá New Jersey Nets NordicPhotos/GettyImages

Leikstjórnandinn Jay Williams hefur skrifað undir samning við New Jersey Nets í NBA deildinni en hann hefur ekki spilað leik í þrjú ár eftir að hafa lent í mjög alvarlegu bifhjólaslysi í júní árið 2003.

Williams leiddi Duke til sigurs í háskólaboltanum árið 2001 og var valinn númer 2 af Chicago Bulls í nýliðavalinu árið 2002. Hann var valinn í annað úrvalslið nýliða í NBA árið 2003, en ók á ljósastaur á bifhjóli sínu sumarið eftir og var á sjúkrahúsi í hvorki meira né minna en þrjá mánuði í kjölfarið.

Allir voru á einu máli að Williams næði aldrei aftur að spila körfubolta eftir slysið, þar sem hann sleit öll liðbönd í hnénu á sér og hlaut taugaskaða í vinstri fætinum.

Williams hefur allar götur síðan strengt þess heit að snúa aftur á körfuboltavöllinn og fréttir af góðri frammistöðu hans á æfingum fyrr í sumar hefðu lofað góðu, var ekki talið líklegt að hann væri nógu góður til að komast að hjá liði í bestu deild í heimi.

Forráðamenn New Jersey Nets hafa þó ákveðið að gefa honum tækifæri og hafa nú gert við hann samning sem tryggir honum þó ekki sæti í liðinu til framtíðar, en leikmaðurinn er sagður í skýjunum með að fá tækifæri til að spreyta sig með Nets - sem spila aðeins 30 km frá æskuheimili hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×