Innlent

Lögregla kvartar undan skemmdarverkum

Nokkuð bar á skemmdarverkum í Reykjavík um nýliðna helgi en þau voru af ýmsu tagi. Rúður voru brotnar í grunnskóla og leikskóla og einnig í bifreið. Hliðarspeglar á bifreiðum fengu heldur ekki að vera í friði en þeir voru brotnir af fimm bifreiðum. Þá var brotin rúða í heimahúsi sem og í fyrirtæki.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að rafmagnskassar og ljósastaurar hafi líka orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum en erfitt sé skilja hvað vaki fyrir fólki með þessu. Veggjakrotarar voru líka á ferðinni og þá var eggjum kastað í hús. Öll þessi mál og fleiri til komu til kasta lögreglunnar í Reykjavík en helgin var erilsöm eins og áður hefur komið fram.

Þá eru ótaldar margar kvartanir sem bárust lögreglunni vegna hávaða í heimahúsum. Af þessu sést að það var einhver ólund í fólki. Ekki er hægt að skilja við helgina án þess að minnast á útivistartíma barna og unglinga. Það skal ítrekað að reglur um útivistartíma gilda jafnt um helgar sem virka daga. Ekki virðast allir hafa það á hreinu því dálítill hópur af krökkum var að þvælast úti þegar þau áttu með réttu að vera komin í háttinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×