Erlent

Viðtal við Kampusch birt

Natascha Kampusch, austurríska stúlkan, sem var í haldi mannræningja í átta ár, eða frá tíu ára aldri, segist einvörðungu hafa hugsað um að flýja á meðan hún var í haldi. Hún hafi einu sinni kastað sér út úr bíl hans á ferð og oft hugsað um að skera af honum höfuðið.

Þetta kemur fram í viðtali við austurríska vikuritið News sem kom út í dag. Þar eru birtar nýjar myndir af Natöschu. Nýjar myndir eru einnig birtar með viðtali við hana í dagblaðinu Kronen-Zeitung sem kemur út á morgun.

Viðtal við hana var einnig sýnt í austurríska ríkissjónvarpinu, ORF, í kvöld. Þar sagðist hún hafa óttast gíslatökumann sinn, Wolfgang Prikopli, svo mikið að það hafi komið í veg fyrir flestar flóttatilraunir. Hann hafi hótað því að myrða nágranna sína, þá hana og loks svipta sig lífi ef hún reyndi að flýja.

Kampusch slapp úr haldi mannræningjans í síðasta mánuði þegar hann leit af henni. Prikopli svipti sig þá lífi og er Kampusch sögð hafa syrgt hann eftir það.

Natascha sagðist ítrekað hafa reynt að gefa vegfarendum í skyn með augunum að hún væri í haldi þegar hún og Prikopli fóru út fyrir hússins dyr, enginn hafi hins vegar veitt því athygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×