Erlent

Evrópufar hrapar á tunglið

Fyrsta geimfar Evrópumanna lauk ferð sinni í dag á fyrirfram ætlaðan hátt með því að rekast á tunglið. Evrópska geimferðastofnunin stóð fyrir förinni, sem hófst fyrir þremur árum. Á þeim tíma hefur geimfarið ferðast í kringum tunglið og safnað ýmsum upplýsingum. En lokaverkefni farsins var sjálfseyðilegging. Það nálgaðist smám saman tunglið, tók nærmyndir af yfirborði þess sem það sendi til jarðar, og hrapaði svo niður á Frábæruvötnum á 7.200 kílómetra hraða á klukkustund. Fyrirfram var gert ráð fyrir því að áreksturinn myndi mynda þriggja sinnum tíu metra gíg á þessu eldfjallasvæði. En það var ekki gígurinn sem skiptir máli heldur rykið sem áreksturinn olli. Evrópskir vísindamenn vonast til að fá vísbendingar um efnissamsetningu jarðvegs á Frábæruvötnum úr rykinu. Þetta er í fyrsta sinn sem vísindamenn fylgjast með því þegar hlutur rekst á tunglið - og vísindamenn víða um heim voru fastir við sjónaukana. Nokkurn tíma tekur áður en niðurstöður fást, en vonast er til að þær færi mönnum nær sanninum um það hvernig tunglið varð til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×