Erlent

Sjálfsvígsárás í Afganistan

Óbreyttur borgari lét lífið þegar ráðist var á herbíla Atlantshafsbandalagsins nálægt Kandahar í Afganistan í dag. Ofbeldi færist stöðugt í aukana í Afganistan, tæpum fimm árum eftir að stjórn talibana var hrakin frá völdum. Árásin var gerð þannig að maður ók upp að bílalest NATO og sprengdi sjálfan sig í loft upp. Auk árásarmannsins dó óbreyttur borgari og tveir særðust. Á fjórum mánuðum hafa sextán hundruð manns fallið í átökum í Afganistan - aðallega talibanar en líka vestrænir hermenn, óbreyttir borgarar og hjálparstarfsmenn. Uppreisnarmenn hafa gert sextíu og fjórar sjálfsvígsárásir það sem af er árinu. Í gær létust sautján manns við svipaðar aðstæður og eins og oftar þá voru það óbreyttir borgarar sem létu lífið. Helstu vígi talibana eru á svæðum Pastúna, sem búa í suðurhluta landsins og meðfram landamærunum við Pakistan, og eru tæplega helmingur íbúa þess. Nú eru Bandaríkjamenn að fækka í herjum sínum á þessum svæðum og Atlantshafsbandalagið að taka við hlutverki þeirra. Eftir fimm ára stríð hafa árásir uppreisnarmanna aldrei verið fleiri og skæðari. Vonir standa til að hernaður undir merkjum NATO verði árangursríkari en ekki er alveg ljóst á hverju þær vonir eru byggðar. NATO-herirnir ætla að leggja meiri rækt við samskiptin við heimamenn. Hamid Karzai forseti Afganistans hefur verið gagnrýninn á fjölþjóðaliðið undanfarin tvö ár. Hann segir að miklu meira fé þurfi að verja til þess að efla lögreglu og her landsins því á endanum verði afganska stjórnin sjálf að ráða niðurlögum talibana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×