Erlent

Engin ógn af kjarnorkuáætlun segir Íransforseti

Verksmiðjan í Arak í Íran.
Verksmiðjan í Arak í Íran. MYND/AP

Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti, vígði í morgun verksmiðju þar sem þungavatns-kjarnaofnar verða notaðir sem hluti að kjarnorkuáætlun Írana. Forsetinn sagði þetta mikilvægan áfanga í áætluninni og lagði áherslu á að þjóðum heims, þar á meðal Ísrael, stafaði ekki ógn af kjarnorkuáætlun stjórnvalda í Teheran.

Vesturveldin hafa gefið Írönum frest fram á fimmtudag í næstu viku til að hætta auðgun úrans. Ef þeir geri það ekki verði gripið til efnahagsþvingana og hafa sum ríki, þar á meðal Bandaríkjamenn, ekki útilokað valdbeitingu. Íranar gáfu í vikunni svar við tilboði vesturveldana um að hætta auðgun úrans gegn því að fá ýmsar ívilnanir. Svarið var ófullnægjandi að mati Bandaríkjamanna og fleiri ríkja en Íranar hafa boðist til að taka þátt í alvarlegum viðræðum í deilunni.

Það var svo í morgun sem Ahmadinejad, Íransforseti, vígði verksmiðjuna í Arak, suð vestur af höfuðborginni Teheran. Vatn þar verður notað til að kæla kjarnaofn sem er í byggingu á sama svæði. Þar verður plútóníum framleitt sem hægt yrði að nota í gerð kjarnavopna. Bandríkjamenn segja Írana ætla sér að framleiða slík vopn á meðan Íranar fullyrða að þeir ætli sér að nota kjarnorku til orkuframleiðslu. Í gær sagði Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans, að ekkert ríki gæti þvingað Írana til að hætta friðsamlegri kjarnorkuframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×