Erlent

170 dóu í flugslysinu

Engar líkur eru taldar á að nokkur hafi komist lífs af þegar rússnesk farþegaþota með 170 manns innanborðs fórst skammt frá Donétsk í Úkraínu í dag. Ókyrrð í lofti er sögð orsök slyssins en hryðjuverk er útilokað.

Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að skilja hvers vegna enginn lifði af þetta hörmulega flugslys því eins og sjá má af myndum brotnaði vélin í smátt þegar hún skall til jarðar skammt frá borginni Donetsk í austanverðri Úkraínu. Vélin, sem var af gerðinni Tupolev 154 og í eigu Pulkovo-flugfélagsins var á leiðinni með ferðamenn frá sumarleyfisstaðnum Anapa við Svartahafið til Pétursborgar í Rússlandi. Þegar hún hafði verið á flugi í nokkra stund barst frá henni neyðarkall og tveimur mínútum síðar var hún horfin af ratsjám. Þá er talið að hún hafi hrapað til jarðar úr 35.000 feta hæð. 170 manns fórust með vélinn þar á meðal tíu manna áhöfn og 39 börn. Í fyrstu var talið að eldur hefði kviknað um borð en það hefur verið borið til baka. Sjónarvottar segja að vélin hafi verið í heilu lagi þegar hún steyptist niður úr háloftunum og því hallast yfirvöld helst að því að hún hafi lent í þrumuveðri eða mikilli ókyrrð og misst þar með afl.

Flugvélar af þessari gerð hafa verið í notkun um áratugaskeið í Rússlandi og mörgum fyrrum Sovétlýðveldum en á seinni árum hafa þær verið taldar í öruggara lagi. Aftur á móti er aðeins mánuður síðan Airbus-þota Sibir-flugfélagsins fórst í lendingu á Irkutsk-flugvelli í Síberíu og með henni 122. Fjögur ár eru svo frá því að þota frá Pulkovo-flugfélaginu brotlenti á leið til Pétursborgar og létust 14 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×