Innlent

Halda áfram að sprengja

Ísraelsstjórn segist geta haldið áfram að varpa sprengjum á hisbolla skæruliða í suðurhluta Líbanons, þrátt fyrir vopnahléð sem Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt og stjórnin sjálf féllst á í hádeginu í dag.

Ísraelskir embættismenn sögðu síðdegis að ályktunin næði einungis til aðgerða sem gætu talist til árása í sóknarskyni, en kæmi ekki í veg fyrir að ráðist væri að vopnabúrum og stöðvum skæruliða í Suður-Líbanon, enda væru slíkar árásir gerðar í varnarskyni. Vestrænir stjórnarerindrekar óttast að þessi víða skilgreining Ísraela á árásum í varnarskyni kunni að verða til þess að vopnahléð - sem enn hefur ekki tekið gildi - renni út í sandinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×