Sport

Þjóðverjar á sigurbraut í síðasta leiknum fyrir HM

Michael Ballack og Bastian Schweinsteiger fagna hér einu þriggja þýskra marka.
Michael Ballack og Bastian Schweinsteiger fagna hér einu þriggja þýskra marka. AP

Þjóðverjar unnu Kólumbíumenn 3-0 í síðasta generalprufunni fyrir HM í Þýskalandi sem hefst á leik þeirra við Kosta Ríka á föstudaginn. Michael Ballack, Bastian Schweinsteiger og varamaðurinn Tim Borowski skoruðu mörkin í leiknum. Þjóðverjar unnu Lúxemborg 7-0, gerði 2-2 jafntefli við Japan og unnu Kolumbíu 3-0 í þremur síðustu leikjum sínum fyrir HM.

Ballack skallaði inn aukaspyrnu Schweinsteiger á 21. mínútu, Schweinsteiger skoraði beint úr aukaspyrnu 16 mínútum síðar og Borowski skoraði síðan þriðja markið á 69. mínútu með skoti af löngu færi. Miroslav Klose og Lukas Podolski fengu bæði frábær marktækifæri en framherjaparið þarf að nýta færin sín betur en í þessum leik ætli Þjóðverjar sér langt í HM í ár.

Norðmaðurinn Terje Hauge dæmdi leikinn en hann rak einmitt Jens Lehmann útaf með rautt spjald í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á dögunum. Lehmann slapp að þessu sinni og hélt auk þess marki sínu hreinu sem var mjög jákvætt fyrir þýska liðið sem hefur gengið illa í varnarleiknum í síðustu landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×