Sport

Phoenix jafnaði

Leandro Barbosa og Steve Nash voru góðir í liði Phoenix í nótt
Leandro Barbosa og Steve Nash voru góðir í liði Phoenix í nótt AFP

Phoenix Suns hefur ekki sagt sitt síðasta orð í úrslitaeinvíginu í Vesturdeildinni og í nótt burstaði liðið Dallas Mavericks 106-86 á heimavelli sínum og jafnaði metin í 2-2 í seríunni. Raja Bell var óvænt í byrjunarliði Phoenix í nótt, en hann er meiddur á fæti.

Leandro Barbosa fór aftur á varamannabekkinn í nótt, en hann hafði ekki náð sér á strik í fjarveru Bell. Barbosa fann sig svo um munaði og var stigahæstur hjá Phoenix með 24 stig og hitti 10 af 13 skotum sínum. Steve Nash skoraði 21 stig, Boris Diaw skoraði 20 stig og Shawn Marion bætti við 15 stigum.

Dirk Nowitzki átti líklega sinn slakasta leik í ár hjá Dallas, en hann hitti mjög illa og skoraði aðeins 11 stig. Josh Howard var stigahæstur hjá liðinu með 16 stig, en fór af leikvelli lítillega meiddur þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Fimmti leikur Detroit og Miami fer fram í kvöld og verður hann sýndur í beinni útsendingu á Sýn um miðnættið og stefnt er að því að sýna alla þá leiki sem eftir eru í úrslitakeppninni í beinni útsendingu. Næsti leikur Dallas og Phoenix er annað kvöld klukkan 1:00 og verður í beinni á Sýn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×