Sport

Dallas komið yfir

Dirk Nowitzki fór fyrir liði Dallas í sóknarleiknum í nótt og skoraði mest allra á vellinum, 28 stig.
Dirk Nowitzki fór fyrir liði Dallas í sóknarleiknum í nótt og skoraði mest allra á vellinum, 28 stig. NordicPhotos/GettyImages

Dallas Mavericks vann aftur heimavallarréttinn í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar í NBA í nótt þegar liðið lagði Phoenix Suns á útivelli 95-88. Frábær varnarleikur skóp sigur Dallas í nótt í leik sem sýndur var beint á Sýn, en það er sannarlega ekki á hverjum degi sem liði Phoenix er haldið undir 90 stigum á heimavelli sínum.

Leikurinn var nokkuð harður og var á tíðum heitt í kolunum milli leikmanna. Phoenix-liðið náði aldrei að keyra almennilega upp hraðann og spila sinn leik, en það var raunar aulagangur heimamanna í varnarfráköstunum sem gerði útslagið, því Dallas hélt forskoti sínu í restina með því að hirða hvert sóknarfrákastið á fætur öðru.

Dirk Nowitzki var frábær í liði Dallas með 28 stig og 17 fráköst, Josh Howard skoraði 22 stig og hirti 12 fráköst og Jason Terry skoraði 19 stig. Þess má til gamans geta að Dallas hefur unnið 23 leiki og ekki tapað einum einasta í allan vetur þegar Josh Howard skorar yfir 20 stig.

Steve Nash var stigahæstur hjá Phoenix með 21 stig og 7 stoðsendingar, Boris Diaw skoraði 20 stig, Leandro Barbosa 17 stig, Tim Thomas var með 14 stig og 10 fráköst og Shawn Marion skoraði 10 stig og hirti 14 fráköst. Boris Diaw hefur nú skorað yfir 20 stig að meðaltali þrjá leiki í röð, en hann hefur aldrei áður gert það á ferlinum.

Næsti leikur liðanna fer einnig fram í Phoenix. Þess má svo að lokum geta að fjórði leikur Miami og Detroit fer fram í kvöld og verður sá lykilleikur í einvíginu sýndur í beinni útsendingu á Sýn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×