Sport

Jason Terry í eins leiks bann

Jason Terry hefur verið frábær í einvíginu við San Antonio, en nú þarf Dallas að vera án hans í 6. leiknum
Jason Terry hefur verið frábær í einvíginu við San Antonio, en nú þarf Dallas að vera án hans í 6. leiknum NordicPhotos/GettyImages

Leikstjórnandinn Jason Terry hjá Dallas Mavericks missir af sjötta leik liðsins í einvíginu við meistara San Antonio á föstudagskvöld, eftir að hann var dæmdur í eins leiks bann fyrir að kýla fyrrum félaga sinn Michael Finley hjá San Antonio undir lok fimmta leiksins í fyrrinótt.

Atvikið átti sér stað þegar nokkrar sekúndur lifðu af leiknum og nokkrir leikmenn börðust um boltann í þvögu á gólfinu. Finley lenti ofan á Terry í látunum og sá svaraði með því að kýla Finley með krepptum hnefa um leið og hann kastaði honum af sér.

Aðalmyndavélar í sjónvarpsútsendingunni náðu ekki atvikinu, en vélar á öðrum stað á vellinum sýndu fram á að um hnefahögg var að ræða. Reglurnar í NBA eru þannig að fyrir hnefahögg - sama hvort það hittir eða ekki - er alltaf eins leiks bann og því missir Terry af sjötta leik liðanna í einvígi sem þegar er að verða sígilt. Þetta er mikið áfall fyrir Dallas, því Terry hefur verið meisturum San Antonio erfiður ljár í þúfu og er næststigahæstur í liði Dallas í úrslitakeppninni með 18 stig að meðaltali í leik.

Mark Cuban, eigandi Dallas, brást hinn versti við þegar hann frétti af banninu og sagði það algera synd að gera ætti einvígið eftirminnilegt með hlutum eins og leikbönnum af litlu tilefni. Dallas leiðir í 3-2 í einvíginu og getur klárað dæmið á föstudagskvöld á heimavelli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×