Sport

Dallas burstaði meistarana

Josh Howard sótti grimmt að körfu San Antonio í nótt og var stigahæsti maður vallarins
Josh Howard sótti grimmt að körfu San Antonio í nótt og var stigahæsti maður vallarins NordicPhotos/GettyImages

Dallas Mavericks vann í nótt nokkuð óvæntan stórsigur á meisturum San Antonio á útivelli í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar 113-91 og jafnaði metin í einvíginu í 1-1. Avery Johnson gerði miklar breytingar á liði sínu fyrir leikinn og þær skiluðu sér svo sannarlega í nótt, þar sem heimamenn sáu aldrei til sólar.

Avery Johnson setti leikstjórnandann Devin Harris inn í byrjunarliðið og færði Jason Terry í stöðu skotbakvarðar. Hann sagði leikmönnum sínum að spila leikinn eins og þeir væru að spila götubolta, en hvað sem það þýðir, stóð ekki á því að leikmenn hans svöruðu kallinu. Stuðningsmenn San Antonio bauluðu fullum hálsi á dómarana meira en hálfan leikinn, því dómgæslan þótti á tíðum nokkuð undarleg og fengu nokkrir leikmenn San Antonio tæknivillur í kjölfarið. Þar á meðal var Nick Van Exel sendur í bað í öðrum leikhluta. Þetta var þriðji leikur San Antonio á fimm dögum.

Josh Howard var stigahæstur í liði Dallas með 27 stig og 9 fráköst, Dirk Nowitzki hafði hægt um sig í sóknarleiknum en hitti vel og kláraði með 21 stig, Devin Harris skoraði 20 stig og Jerry Stackhouse setti 19 stig af bekknum.

Tim Duncan skoraði 28 stig og hirti 9 fráköst hjá San Antonio, Tony Parker skoraði 15 stig og Manu Ginobili skoraði 13 stig en var langt frá sínu besta. Næsti leikur í einvíginu fer ekki fram fyrr en á laugardag og verða leikmenn San Antonio líklega fegnir hvíldinni eftir útreiðina í nótt, sem var einhver sú versta sem liðið hefur hlotið á heimavelli í háa herrans tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×