Sport

Fyrsti heimaleikurinn síðan Katrín reið yfir

Fyrsti leikurinn síðan fellibylurinn Katrín gekk yfir New Orleans fer fram á heimavelli Hornets í kvöld
Fyrsti leikurinn síðan fellibylurinn Katrín gekk yfir New Orleans fer fram á heimavelli Hornets í kvöld

New Orleans Hornets spilar í kvöld sinn fyrsta leik á heimavelli síðan fellibylurinn Katrín reið yfir borgina þann 29. ágúst á síðasta ári, en liðið hefur spilað megnið af heimaleikjum sínum í Oklahoma City síðan þá. Liðið spilar aðeins þrjá leiki í New Orleans Arena í ár og sex leikir eru fyrirhugaðir þar á næsta tímabili.

Viðgerðarkostnaður í New Orleans Arena er þegar sagður nema um 10 milljónum dollara, en þó enduruppbygging í borginni gangi þokkalega, var ekki talið ráðlegt að liðið spilaði nema þrjá leiki í borginni á þessu keppnistímabili. Áður en fellibylurinn Katrín reið yfir borgina voru þar um 465.00 íbúar, en enn þann dag í dag hafa ekki nema um 189.000 manns skilað sér til baka eftir náttúruhamfarirnar.

Phil Jackson, þjálfari Los Angeles Lakers sem sækir New Orleans heim í kvöld, sagðist hafa áhyggjur af ástandi hallarinnar fyrir leikinn. "Maður spyr sig hvort höllin er í standi til að hægt sé að spila þarna. Ég heyrði að byggingin hefði verið frekar illa leikin eftir flóðin og ég velti fyrir mér hvort þetta á eftir að líkjast hefðbundnum körfuboltaleik yfir höfuð. Og hvað ætla menn að gera hérna í framhaldinu? Á liðið bara að þvælast fram og aftur um landið með heimavöllinn?"

"Þetta verður vonandi til þess að fólk fái það á tilfinninguna að hlutirnir séu að komast í fyrra horf, en því er ekki að neita að tilfinningarnar eru sterkar að koma hingað aftur," sagði PJ Brown, leikmaður New Orleans, sem var einn þeirra sem áttu hús sem eyðilagðist í flóðunum.

Smush Parker, leikmaður LA Lakers tók í sama streng. "Þetta verður mjög sérstakur leikur og mér þykir hann sýna að hlutirnir stefni í rétta átt hérna í borginni. Lífið heldur áfram hér, rétt eins og það gerði í New York eftir árásirnar á World Trade Center. Þar hefur fólk haldið áfram og hlutirnir eru smátt og smátt að komast í eðlilegt horf."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×