Sport

Hinrich með stórleik

Kirk Hinrich átti stórleik í liði Chicago í nótt, skoraði 30 stig, hirti 13 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og tapaði ekki einum einasta bolta
Kirk Hinrich átti stórleik í liði Chicago í nótt, skoraði 30 stig, hirti 13 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og tapaði ekki einum einasta bolta NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. Chicago Bulls lagði Minnesota Timberwolves 111-100 á heimavelli sínum, en sigurinn var kostnaðarsamur þar sem liðið missti tvo menn útaf meidda eftir samstuð.

Malik Allen meiddist nokkuð alvarlega á höfði og hálsi og var fluttur á sjúkrahús eftir að hann fékk slæma byltu. Félagi hans Chris Duhon í liði Chicago fékk einnig höfuðhögg og er líklega með brákaðan kjálka. Það var annars leikstjórnandinn Kirk Hinrich sem var besti maður Chicago í leiknum. Hann skoraði 30 stig, hirti 13 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Kevin Garnett var atkvæðamestur í liði Minnesota með 27 stig og 12 fráköst.

Seattle lagði New Orleans á heimavelli sínum 114-104. Ray Allen skoraði 33 stig fyrir Seattle en nýliðinn Chris Paul átti frábæran leik fyrir New Orleans, skoraði 25 stig, gaf 14 stoðsendingar og hirti 7 fráköst.

LA Lakers lyfti sér aftur yfir 50% vinningshlutfallið með því að bursta Orlando Magic 102-87. Kobe Bryant skoraði 28 stig og gaf 8 stoðsendingar fyrir Lakers, en Grant Hill skoraði 23 stig fyrir Orlando.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×