Sport

Hill íhugar að hætta eftir næsta tímabil

Grant Hill er einn fjölhæfasti leikmaður sem spilað hefur í NBA á síðasta áratug, en hefur átt við mjög erfið meiðsli að stríða síðan um aldamót
Grant Hill er einn fjölhæfasti leikmaður sem spilað hefur í NBA á síðasta áratug, en hefur átt við mjög erfið meiðsli að stríða síðan um aldamót NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Grant Hill hjá Orlando Magic hefur viðurkennt að hann íhugi að leggja skóna á hilluna eftir næsta keppnistímabil í NBA deildinni, en Hill hefur sem kunnugt er átt við þrálát meiðsli að stríða allar götur síðan hann gekk til liðs við Orlando árið 2000.

Hill var einn besti leikmaður deildarinnar á sínum tíma, en hefur þurft að gangast undir fimm aðgerðir á ökkla. Endurkoma hans í fyrra var þó einhver sú magnaðasta í sögu deildarinnar, en þá náði hann að koma til baka og var valinn í stjörnuliðið.

"Það er vissulega möguleiki að ég leggi skóna á hilluna þegar samningur minn rennur út eftir næsta tímabil," sagði Hill, sem skrifaði undir 92 milljón dollara, sjö ára samning við Orlando eftir að hann kom frá Detroit Pistons árið 2000.

"Það kemur að því þegar menn hafa orðið fyrir svona alvarlegum meiðslum að menn verða að vera skynsamir. Maður verður auðvitað að horfa til framtíðarinnar og geta stundað þann lífstíl sem maður kýs sér. Málið er einfalt, mannslíkaminn er ekki byggður fyrir það gríðarlega álag sem er í NBA deildinni og ég er talandi dæmi um það," sagði Hill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×