Erlent

Allir útlendingar fluttir burt

Einskismannsland Biðröð Srí Lanka-manna sem voru strandaglópar á landsvæði tamíla. Stjórnarherinn og Tígrarnir lokuðu helsta þjóðveginum frá Jaffna-skaganum fyrr í mánuðinum.
Einskismannsland Biðröð Srí Lanka-manna sem voru strandaglópar á landsvæði tamíla. Stjórnarherinn og Tígrarnir lokuðu helsta þjóðveginum frá Jaffna-skaganum fyrr í mánuðinum. MYND/AP

 Alþjóðlegi Rauði krossinn ætlar að senda ferju frá Jaffna á norðurhluta Srí Lanka til þess að flytja á brott þá útlendinga sem enn eru á svæðinu. Farþegar verða erlendir hjálparstarfsmenn og annað fólk með erlend vegabréf, en þeirra á meðal eru Bretar, Kanadamenn og tamílar með norsk vegabréf. Ferjan tekur hundrað og fimmtíu farþega, en vitað er af fleiri útlendingum sem sendiráð ýmissa landa vilja koma á brott.

Morð og mannrán eru nú daglegt brauð á Jaffna-skaga, þrátt fyrir tuttugu og tveggja tíma daglegt útgöngubann og varðstöðu þúsunda hermanna á götum borga og við þjóðvegi.

Ákvörðun Rauða krossins var tilkynnt í kjölfar þess að kaþólskur prestur týndist. Sá varð vitni að því er fimmtán manns létust þegar stjórnarherinn lét skotum rigna yfir kirkju eina á Kyats-eyju fyrr í mánuðinum. Presturinn hafði krafist opinberrar rannsóknar á atvikinu, þegar hann hvarf skyndilega.

Mannréttindasamtök óttast um afdrif hans, en talsmaður lögreglunnar sagði rannsókn á hvarfi prestsins í undirbúningi. Síðast sást til hans við eftirlitsstöð stjórnarhersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×