Innlent

Hefði getað orðið formaður

Guðni ágústsson vill áfram vera varaformaður Framsóknarflokksins.
Guðni ágústsson vill áfram vera varaformaður Framsóknarflokksins. MYND/GVA

Guðni Ágústsson gefur kost á sér til áframhaldandi setu í embætti varaformanns Framsóknarflokksins.

Guðni hefur síðustu daga vegið og metið hvort hann ætti að gefa kost á sér til embættis formanns eða varaformanns og varð síðari kosturinn ofan á. Ég met það svo að Framsóknarflokkurinn þurfi á sátt og einingu að halda. Ég geri mér grein fyrir að ég hefði vissulega getað unnið formannskosningu en það hefði kostað mikil átök í flokknum og baráttu á milli félaga, sagði Guðni í samtali við Fréttablaðið í gær. Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur enn sem komið er einn gefið kost á sér til formanns.

Jónína Bjartmarz hefur áður gefið kost á sér til varaformennsku og því ljóst að til kosningar kemur á flokksþinginu í ágúst. Guðni segir stöðu sína sterka og að hann finni fyrir góðum anda í sinn garð.

Það verða vissulega mikil tíðindi ef framsóknarmenn myndu fella mig úr varaformennsku, segir Guðni sem telur mikilvægt að flokksmenn snúi vörn í sókn, fari í málefnastarf og skerpi línur í samstöðu. Hann segist hætta afskiptum af stjórnmálum nái hann ekki kjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×