Innlent

Aðrir verða líka að spara

Gunnar I. Birgisson. Bæjarstjóri í Kópavogi.
Gunnar I. Birgisson. Bæjarstjóri í Kópavogi.

Bæjaryfirvöld í Kópavogi eru reiðubúin að skera niður verklegar framkvæmdir að því gefnu að önnur sveitarfélög taki tillit til óska ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn þenslu og að ríkisvaldið útfæri tillögur um frestun eigin framkvæmda.

Tillögur bæjarstjóra, sem bæjarráð samþykkti á fundi í gær, gera ráð fyrir að framkvæmdir fyrir samtals 411 milljónir króna verði skornar niður á árinu. Ráðgerðar voru framkvæmdir í bænum fyrir 3,5 milljarða króna og nema niðurskurðarhugmyndirnar því um 12 prósentum af þeim.

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri segir að dregið verði úr framkvæmdum við knatthús og við það sparist 100 milljónir, hægt verði á gatnagerð í nýjum hverfum upp á aðrar 100 milljónir, framkvæmdum við vatnsveituna upp á 80 milljónir verði slegið á frest og hætt við viðhaldsverkefni hjá bænum upp á 40 milljónir. Þá verði dregið úr mörgum minni verkum.

Við gerum þetta með þeim fyrirvara að ríkið og önnur sveitarfélög geri eins því það verða allir að leggjast á þessa ár að draga úr þenslunni, minnka verðbólguna og tryggja stöðugleikann.

Senn hefst vinna við fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir árið 2007 og segir Gunnar að í henni verði ástand efnahagsmála haft að leiðarljósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×