Innlent

Fimmtíu milljónir í bætur

Pálmi Ragnar Pálmason
Pálmi Ragnar Pálmason

Það sem af er árinu hefur Landspítali - háskólasjúkrahús þurft að greiða um fimmtíu milljónir í skaðabætur vegna þriggja dómsmála þar sem spítalanum er stefnt. Tvö málanna varða læknamistök og eitt var vegna veikinda sem starfsmaður hlaut af vinnu á sjúkrahúsinu.

Möguleg skaðabótamál Tómasar Zoëga, fyrrverandi yfirlæknis á geðsviði, og Stefáns Matthíassonar æðaskurðlæknis gætu svo hækkað fjárhæðina töluvert, en lögmaður Tómasar sagði í samtali við Fréttablaðið í byrjun júlí að skaðabótakrafa hans gæti numið allt að hundrað milljónum króna.

„Því miður er þetta staðreyndin í málinu, þótt allir vilji auðvitað komast hjá mistökum þá verða þau því miður,“ segir Pálmi Ragnar Pálmason, formaður stjórnarnefndar LSH. „Enn er óljóst hvað mun gerast næst í máli Stefáns en mál Tómasar er komið á leiðarenda og við verðum að sæta því.“

Læknafélag Ísland segir ámælisvert að stjórnendur Landspítala - háskólasjúkrahúss ætli sér ekki að leiðrétta hlut læknanna tveggja sem dómstólar hafa úrskurðað að reknir voru með ólögmætum hætti. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.- sþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×