Innlent

Litlu sparisjóðirnir þoli varla hærri bindiskyldu

Litlu sparisjóðirnir þola varla hærri bindiskyldu, segir aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. Hann undrast málfluting þeirra sem vilja snúa til fyrri hátta, enda notar enginn seðlabanki í þróuðu ríki, bindiskyldu í baráttunni við verðbólgu.

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands sagði í fréttum Stöðvar 2í gær, að Seðlabankinn verði að hækka bindi- og lausafjárskyldu bankanna til að mæta hratt vaxandi verðbólgu.

Bindiskyldan segir til um hversu mikin hluta fjár síns viðskiptabankar og sparisjóðir þurfa að geyma í Seðlabankanum. Nú er þetta hlutfall tvö prósent. Fyrir nokkrum misserum var það fjögur prósent sem þýddi að þá höfðu bankarnir minna fé til að lána út.

Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að bindiskyldan sé tæki sem Seðlabankinn gæti notað. Hins vegar noti enginn seðlabanki í þróuðu ríki lengur bindiskyldu sem stjórntæki til að stýra peningamálum.

Aðspurður hvort hægt sé að beita bindisskyldu og vaxtahækkunum saman segir Arnór að báðar aðgerðir leiði til hærri vaxta og til þess að krónan styrkist. Það sé því ekki rétt sem sumir álíti að þetta sé á einhvern hátt mýkri aðgerð. Þvert á móti geti hún komið ójafnt niður á einstökum lánastofnunum. Litlir sparisjóðir þoli illa hærri bindiskyldu en stærri fjármálastofnanir eigi fleiri kosta völ þar sem þær geti t.d. frekar fengið erlend lán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×