Erlent

Viðvaranir mannréttindahópa

Talsmenn mannréttinahópa í Bretlandi tóku í gær ekki vel í tilkynningu Blairs um hertar aðgerðir gegn hryðjuverkum. Shami Chakrabarti, framkvæmdastjóri mannréttindahópsins Liberty, sagði að ekki væri hægt að samþykkja hugmyndir Blairs um að senda fólk til ríkja þar sem það á hættu að verða pyntað. Þá sagði hann hættulegt af Blair að gera það að lögbroti að réttlæta eða tala vel um hryðjuverk, hvar sem er í heiminum. Eric Metcalfe, mannréttindahópnum Justice, sagði að í frjálsu samfélagi væri ekki barist gegn hryðjuverkamönnum með því að senda þá úr landi, heldur ætti að ákæra þá í Bretlandi. Iqbal Sacranie, framkvæmdastjóri Ráðs múslima í Bretlandi, segir að þrátt fyrir að samtökin Hizb ut-Tahrir séu ekki sammála Ráðinu um hvernig skuli taka þátt í breskum stjórnmálum, sé ekki rétta leiðin að banna samtökin. Ráð múslima telji Hizb ut-Tahrir í Bretlandi friðsamleg samtök. Jákvæðustu viðbrögðin komu frá talsmönnum Íhaldsflokksins og Ken Jones, formanns félags lögregluforingja, sem sagði stjórnvöld hafa verið í samstarfi við lögregluna um þessar hugmyndir og hann sé þeim sammála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×