Erlent

Íraksstríðið ástæðan

Stríðið í Írak var ástæða seinni bylgju hryðjuverka í Lundúnum en ekki trúarbrögð, segir Osman Hussain, sá tilræðismannanna sem handtekinn var í Róm á föstudag. Ítalskir fjölmiðlar hafa komist yfir skýrslu byggða á yfirheyrslum yfir Osman Hussain og þar segir meðal annars að hópurinn hafi engin tengsl við al-Qaida, Osama bin Laden eða þá sem gerðu fyrri bylgju árása í London þar sem yfir fimmtíu voru drepnir. Árásir þess hóps hafi verið tilræðismönnunum í seinni hópnum fyrirmynd. Í aðdraganda árásanna ræddu tilræðismennirnir vinnuna sína, stjórnmál og stríðið í Írak, en báðu aldrei saman. Þeir horfðu á kvikmyndir, einkum heimildar- og fréttamyndir frá Írak, þar sem sjá mátti konur og börn falla fyrir hendi vestrænna hermanna og svo ekkjur, mæður og dætur sem grétu. Allt styrkti þetta tilræðismenninna í þeirri trú að þeir yrðu að grípa til aðgerða. Fregnir ítalskra fjölmiðla eru þó nokkuð misvísandi. Corriere della Sera greinir til dæmis frá því að Osman hafi sagt yfirheyrendunum að hann hafi ekki vitað hvað var í bakpokanum sem hann var með en hafi síðan breytt þeirri frásögn sinni og haldið því fram að tilræðin hafi aðeins átt að vera mótmæli. Sprengjurnar sem þeir settu saman hafi ekki átt að særa eða granda neinum. Il Messaggero segir Osman hins vegar hafa sagt að tilræðismennirnir hafi átt að sprengja sig í loft upp. Osman berst nú af krafti gegn því að verða framseldur til Bretlands. Verjandi hans segir hugsanlegt að málið geti tekið allt að tvo mánuði. Bróðir Osmans var handtekinn í morgun. Osman var handtekinn í íbúð bróðursins en ekki er vitað hvað honum er gefið að sök.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×