Erlent

Enn fleiri handtökur í Bretlandi

Breska lögreglan fann sextán sprengjur í skotti bíls sem einn af mönnunum sem gerðu hryðjuverkaárás á London hafði á leigu. Þykir þetta sýna svo ekki verði um villst að árásirnar á London sjöunda júlí hafi bara átt að vera byrjunin á mun fleiri árásum. Sprengjurnar fundust í Luton þar sem bíllinn var geymdur. Árásarmennirnir tóku svo lest þaðan til London. Talið er að annar hópur hafi átt að sækja sprengjurnar sextán í kjölfar fyrstu árásanna, og nota þær svo til frekari hryðjuverka strax í kjölfarið. Í morgun varaði Ian Blair, yfirlögreglustjórinn í London, við hættu á frekari árásum. Það væri ljóst að fleiri en einn hópur væri að verki og þeir kynnu til verka. Það að árásirnar í síðustu viku hafi misheppnast væri bara heppni og ekki væri rétt að draga ályktanir um styrk hryðjuverkamannanna út frá þeim. Lögreglan í London og víðar um Bretland er með gríðarlegan viðbúnað á götum úti þessa dagana og á næstu dögum verður öryggisgæsla við öll samgöngumannvirki hert til muna. Lögregla og öryggissveitir eru með alla anga úti og þannig hafa meira en tuttugu manns verið handteknir í kjölfar seinni árásanna á London síðasta fimmtudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×