Erlent

Minnst fimmtíu létust í árásunum

Tala látinna eftir sprengjuárásirnar í Lundúnum á fimmtudagsmorgun var í gærkvöld komin í 49, að sögn lögreglu ytra og ljóst að hún ætti enn eftir að hækka. 22 voru enn sagðir í lífshættu og ekki er vitað um afdrif fjölda fólks. Ekki liggja þó fyrir upplýsingar um nákvæmlega hversu margra er saknað. Hinir látnu voru af átta þjóðernum hið minnsta. Sir Ian Blair, yfirmaður Lundúnalögreglunnar, sagði augljóst að hryðjuverkahópur hefði starfað í landinu og undirbúið árásirnar. Tímasetningar sprenginganna sýndu að einn maður hefði ekki getað komið öllum sprengjunum fyrir. Í Lundúnum hófst í gær bataferli borgarinnar. Farþegar sneru aftur í almenningssamgöngutæki, bæði neðanjarðarlestir og strætisvagna. Múslimar höfðu varann á sér vegna mögulegrar andúðar á þeim eftir árásirnar, en héldu engu að síður föstudagsbænir sínar. Í skemmtanahverfum borgarinnar hófust aftur sýningar þar sem þeim hafði verið aflýst. Umferðarlögreglan, sem hefur umsjá með neðanjarðarlestunum, sagði enn unnið að því í gær að hreinsa burt brak lestar nærri Russell-torgi þar sem að minnsta kosti 21 lét lífið. "Björgunarlið er komið á staðinn og þar hafa sést fleiri látnir, en tekið gæti nokkra daga að ná þeim," sagði Andy Trotter aðstoðaryfirlögregluþjónn. Mörg lestargöngin eru yfir 30 metra djúp og í þeim er krökkt af rottum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×