Innlent

Vísað frá dómi

"Þessi niðurstaða sannar það og sýnir að lögbannið var tilefnislaust með öllu og þeir sem óskuðu eftir því í upphafi sem og þeir sem settu það á okkur mega skammast sín," segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands. Héraðsdómur Norðurlands eystra vísaði í gær frá kröfu Útgerðarfélagsins Sólbaks á hendur Sjómannasambandinu, Vélstjórafélaginu, Félagi skipstjórnarmanna og Einingar-Iðju um staðfestingu lögbanns þess er sett var á félögin við hótanir þeirra að trufla löndun Sólbaks þann 13. október síðastliðinn. Taldi dómurinn að álagt lögbann sýslumanns hefði verið of víðtækt og skort lagaheimildir í upphafi og ekki hafi orðið neinnar truflunar vart þegar löndun átti sér stað. Varð ekki séð að stefnandi hefði neina réttarhagsmuni af því að fá lögbannið staðfest og því vísað frá. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir dóminn staðfesta að Eining-Iðja hafi ekki einkarétt á löndun á Eyjafjarðarsvæðinu og því hafi Útgerðarfélagið sólbakur ekki getað krafist lögbannsins. "En málið er búið og því var því vísað frá. Við erum mjög sáttir við þetta."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×