Innlent

Vandaði ráðamönnum ekki kveðjurnar

Bobby Fisher er á leiðinni til Íslands og er búist við honum til landsins í kvöld. Hann vandar Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra Japans ekki kveðjurnar og segir að þá eigi að hengja. Sæmundur Pálsson segist vona að Fisher róist eftir að hafa fengið hvíld. Skákmeistarinn var látinn laus úr prísundinni í Japan í nótt og er nú á leið til Kaupmannahafnar ásamt unnustu sinni, Miyoko Watai, þangað sem hann væntanlegur klukkan fjögur síðdegis. Hann var þó ekki látinn laus fyrr en hann undirritaði yfirlýsingu þess efnis að hann félli frá málsókn á hendur japönskum yfirvöldum. Fischer ræddi við fréttamenn á flugvellinum í Tókýó og var stuttorður. Skilaboð Fischers til heimsbyggðarinnar voru að níu mánaða varðhaldsvistin í Japan hefði verið mannrán, skipulagt af Bush Bandaríkjaforseta og Koizumi, forsætisráðherra Japans. Þeir væru stríðsglæpamenn og þá ætti að hengja. Sæmundur Pálsson og fleiri úr stuðningamannahópi Fishers eru komnir til Kaupmannahafnar til að taka á móti honum og unnustu hans á Kastrup-flugvelli. Hann segist ekki hafa heyrt í Fischer en væntanlega hafi verið mikið að gera hjá honum. Hann hafi þurft að bíða í Japan eftir því að samþykkt yrði að hann félli frá kröfu um lögsókn á hendur japönskum stjórnvöldum vegna töku vegabréfsins. Sæmundur segir Fischer vera spenntan en vonandi geti hann sofið í flugvélinni þannig að verði úthvíldari. Sæmundur segist hafa talað við Benedikt Höskuldsson, sendiráðunaut  í Japan, í morgun sem hafi hitt Fischer og hann hafi látið vel af honum. Fischer hefði að vísu blótað Bush og forsætisráðherra Japans en öðru leyti hefði hann verið mjög bljúgur og glaður. Sæmundur segist aðspurður vona að Fischer verði sprækur þegar þeir hittist og þá vonar hann af Fischer verði ekki með neinar leiðindayfirlýsingar. Það hafi komið honum í þá stöðu sem hann hafi verið í.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×