Innlent

Vilja rannsókn á viðskiptum banka

Þingmenn Vinstri-grænna vilja rannsókn á viðskiptum bankanna með lóðir og fasteignir - og hvort þeir brjóti lög með því að hafa byggingarverktaka á sínum snærum. Viðskiptaráðherra ætlar ekki að krefjast þess að bankarnir láti í té upplýsingar um fasteigna- og lóðakaup sín. Í lögum er kveðið á um að bankar skuli ekki sinna atvinnustarfsemi nema hún tengist starfsemi þeirra að öðru leyti. Fasteignaheildsala hefur þó verið mikið í umræðunni, ekki síst þegar Frjálsi fjárfestingarbankinn átti hæstu tilboð í lóðir við Bjarkarás í Garðabæ. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna, spurði viðskiptaráðherra á Alþingi í dag hversu margar fasteignir væru skráðar í veðmálabækur sem eign fjármálafyrirtækja. Viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sagðist í svari ekki hafa aðgang að þessum upplýsingum og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hefðu ekki viljað láta þær í té þar sem um einkamál væri að ræða. Málið var rætt í upphafi þingfundar í dag. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, spurði hver væru rök fjármálafyrirtækjanna og viðskiptaráðuneytisins fyrir því að upplýsingarnar mættu ekki koma fram í dagsljósið - og svaraði sjálfur: „Engin.“ Valgerður sagði að Vinstri-grænir hefðu krafist þess að Fjármálaeftirlitið heyrði undir Alþingi til að koma í veg fyrir afskipti ráðherra. Nú krefðust þeir þess að hún segði eftirlitinu fyrir verkum. Hún sagði að þeir yrðu að átta sig á því að fyrirtækin í landinu hefðu ákveðið svigrúm fyrir starfsemi sína, án þess að það væri rætt á Alþingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×