Innlent

Fischer orðinn Íslendingur

Bobby Fischer er orðinn Íslendingur eftir að umsókn hans um ríkisborgararétt fékk sérstaka flýtimeðferð í þinginu. Aukafundur var haldinn í allsherjarnefnd síðdegis vegna athugasemda sem bárust frá bandarískum stjórnvöldum. Umsóknin fór í gegnum þrjár umræður á þinginu, án þess að nokkur umræða hafi átt sér stað, og var síðan samþykkt með 40 samhljóða atkvæðum. Tveir þingmenn sátu hjá, Birkir Jón Jónsson og Dagný Jónsdóttir, þingmenn Framsóknarflokks. Tuttugu og einn þingmaður var annað hvort fjarverandi eða með fjarvist Allsherjarnefnd ákvað einróma að mæla með því að Fischer fengi hér ríkisborgararétt eftir að það fékkst staðfest frá japanska útlendingaeftirlitinu að með íslensku ríkisfangi fengi skákmeistarinn ferðafrelsi að nýju. Aukafundur var haldinn í nefndinni klukkan eitt í dag því upplýsingar bárust um að ameríska sendiráðið hefði komið á framfæri ákveðnum athugasemdum við utanríkisráðuneytið. Birgir Ármansson, einn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, segir athugasemdirnar þar hafa verið kynntar en þær hafi verið ósköp fyrirsjánlegar, án þess að vilja fara nánar út í þær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×