Innlent

Reiknar með að sækja Fischer

Sæmundur Pálsson, einkavinur Bobbys Fischers, er himinlifandi yfir þeim fregnum að Fischer verði líklega veitt íslenskt ríkisfang fyrir páska. Hann er nýkominn frá Japan en ætlar að fara þangað aftur og aðstoða vin sinn við ferðalagið heim til Íslands. Hann reiknar með að kærasta Fischers komi líka. Sæmundur á von á því að Fischer og unnusta hans Myoko Watai setjist að hér á landi. Hann segir hins vegar að fái Fischer íslenskan ríkisborgararétt þá verði honum allir vegir færir líkt og öðrum Íslendingum og þá geti hann ferðast frjáls um heiminn. Fischer sé kannski ekki alveg eins og fólk er flest, eins og gildi um alla snillinga, og menn verði að búa sig undir það að hann gæti flogið um allan heim. Aðspurður hvort menn séu farnir að velta fyrir sér hvar Fischer komi til með að búa komi hann til landsins segir Sæmundur að hann hafi aðeins rætt það við Fischer. Hann hafi fengið ágætistilboð frá góðum manni sem reki hótelíbúðir hér í borg um að Fischer gæti dvalið þar á meðan hann væri að átta sig. Hann muni þó hugsanlega byrja á sínum gamla stað, Hóteli Loftleiðum, þar sem hann hafi dvalið þegar hann tefldi um heimsmeistaratitilinn. Sæmundur vonar að Fischer geti keypt sér íbúð hér á landi ef hann hugsi sér að eiga hér samastað, en ekki sé búið að taka þá peninga af Fischer sem hann eigi. Sæmundur vonar að Fischer setjist hér að hans vegna því hann yrði frekar látinn í friði hér en víða annars staðar. Svo gæti hann ferðast um Evrópu ef hann kysi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×