Innlent

Fischer sakaður um skattalagabrot

Bandarísk stjórnvöld saka nú Fischer um skattalagabrot og hyggjast ákæra hann 5. apríl. Stuðningsmenn skáksnillingsins telja að brögð séu í tafli og hvetja íslensk stjórnvöld til að afhenda Fischer vegabréf til Íslands áður en Japönum takist að framselja hann til Bandaríkjanna. Stuðningshópur Bobbys Fischers sem dvelur í Japan óttast mjög um hans hag í fangelsinu en hann er í einangrun í gluggalausum klefa. Á sama tíma er í undirbúningi í Bandaríkjunum ný ákæra á hann um skattsvik í viðbót við ásakanir um að brjóta viðskiptabann á fyrrverandi Júgóslavíu með því að tefla þar skák við Spasskí fyrir meira en tíu árum. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, óttast að honum séu brugguð launráð til að fá hann framseldan til Bandaríkjanna áður en takist að láta hann hafa íslenskt vegabréf. John Bosnitch, sem er í stuðningsmannahópnum, tekur í sama streng. Hann segir að vegabéf Fischers hafi verið í sendiráði Íslands í Japan í viku. Stuðningmennirnir hafi spurt sendiherrann hvað sé að gerast og hann hafi svarað því til að hann þurfi að fá fyrirmæli frá Íslandi. Bosnitch segir að stuðningsmennirnir þurfi vegabréfið núna og á morgun hyggist þeir senda lögmann Fischers að dyrum sendiráðsins. Lögmaðurinn muni biðja sendiherrann að afhenda sér vegabréfið og þegar það sé komið í hans hendur sé það líka komið í hendur Bobbys Fichers. Þá geti Fischer tilkynnt japönskum stjórnvöldum að hann hafi allt sem þurfi til að geta farið. Bosnitch segir að ekki sé hægt að bíða lengur. Komið sé að úrslitastund og allt sé nú í höndum Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×