Innlent

Neyðarfundur í kennaradeilunni

Forsætisráðherra tilkynnti fyrir stundu að hann útiloki ekki að lög verði sett á verkfall grunnskólakennara. Hann hefur boðað til neyðarfundar á morgun með deilendum eftir að viðræður strönduðu algerlega um hádegisbil í dag.  Eftir þriggja klukkustunda langan fund hjá ríkissáttasemjara í morgun sammæltust deilendur um að til annars samningafundar yrði ekki boðað fyrr en eftir tvær vikur. Við það verður ekki unað af hálfu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Hann sagði á blaðamannafundinum sem hann boðaði til á sjötta tímanum í dag að hann og Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi átt fund með ríkissáttasemjara þar sem hann gerði ráðherrunum grein fyrir því að kennaradeilan væri í mjög alvarlegum hnút. Allar leiðir hafi verið reyndar og fundur ekki boðaður að nýju fyrr en eftir hálfan mánuð því deiluaðilum hafi ekki fundist rétt að boða fund fyrr.  Halldór sagði að hann og Davíð hafi í kjölfarið ákveðið að boða deiluaðila á sinn fund strax í fyrramálið. Að honum loknum verði haft samráð við aðra aðila, m.a. stjórnarandstöðuna. „Það er alveg ljóst að við þessar aðstæður getur ríkisstjórnin að sjálfsögðu ekki setið aðgerðarlaus. Hér er svo mikið í húfi. Þess vegna höfum við ákveðið að kanna allar leiðir sem gætu orðið til þess að leysa þessa deilu,“ sagði forsætisráðherra. Skili þau fundahöld ekki árangri útilokar forsætisráðherra ekki að gripið verði til lagasetningar og að kjör grunnskólakennara verði ákvörðuð af gerðardómi. Þrátt fyrir að samningsaðilar hafi hafnað slíkri íhlutun ríkisvaldsins fyrir fáeinum dögum, þá má segja að formaður Kennarasambandsins hafi kallað á slíkan gjörning hjá ríkissáttasemjara í morgun þegar hann lagði til að laun kennara yrðu sett í gerðardóm. Verði það lendingin er kristaltært að grunnskólakennarar munu ekki sætta sig við að almenn launaþróun verði notuð sem viðmið, heldur laun framhaldsskólakennara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×