Innlent

Neyðaraðstoð sinnt að norðan

Næsta föstudag verða opnuð ný þjónustuborð Neyðarlínunnar á Akureyri sem sinnt verður af slökkviliði og lögreglu nyrðra. Eftir breytinguna verða fjögur þjónustuborð staðsett á lögreglustöðinni í Þórunnarstræti á Akureyri, tvö í umsjá lögreglu og tvö sem slökkviliðið mannar. Lögreglu- og slökkviliðsmenn frá Akureyri verða í þjálfun í Reykjavík vegna þessa núna um helgina, að sögn Erlings Júlínussonar, slökkviliðsstjóra á Akureyri. "Eftir breytinguna verðum við komnir með aðkomu og hlutdeild í þessari vinnu," sagði hann, en bætti við að sá sem hringdi inn ætti ekki að finna á því nokkurn mun hvort svarað væri á þjónustuborði í Reykjavík eða á Akureyri. Starfsmenn á þjónustuborðunum fyrir norðan sinna símsvörun fyrir allt landið, rétt eins og gert er í Reykjavík. "Hins vegar verður hægt að vísa á okkur verkefnum, svo sem þjónustu við vettvang sem er hér fyrir norðan," segir Erling og nefnir sem dæmi að stundum þurfi að ræsa út fólk frá vatns- eða rafmagnsveitum, eða kalla til lækna, í tengslum við eldsvoða og önnur slys. "Við verðum þá hluti af þeirri afgreiðslu, að þjónusta vettvanginn," sagði Erling og kvaðst hlakka til aukins samstarfs við starfsfólk Neyðarlínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×