Innlent

Smygluðu fíkniefnum og koffíni

Hæstiréttur dæmdi tvíburabræðurna Jökul og Ægi Ísleifssyni í tveggja ára fangelsi annars vegar og eins árs fangelsi hins vegar fyrir innflutning og vörslu fíkniefna. Hæstiréttur mildaði þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdi bræðurna í tveggja og hálfs árs fangelsi og tuttugu mánaða fangelsi. Bræðurnir voru dæmdir fyrir smygl á fíkniefnum með Arnarfelli, skipi Samherja, þar sem Jökull var háseti. Fyrsta tilraun bræðranna til innflutnings fór út um þúfur því leitarhundur lögreglunnar fann rúmt kíló af amfetamíni í skipinu áður en bræðurnir komust til þess að sækja það. Þetta var í ágústbyrjun árið 2003. Bræðurnir ákváðu að reyna fíkniefnasmygl á nýjan leik og var ætlunin að kaupa eitt kíló af amfetamíni í Hollandi og koma því til Íslands í Arnarfelli. Í Amsterdam kom hins vegar babb í bátinn vegna þess að öðrum bræðranna og vitorðsmanni þeirra var selt amfetamín sem síðar reyndist vera koffín. Efninu var ásamt kílói af hassi smyglað til landsins þar sem annar bróðirinn var handtekinn eftir að hann vitjaði efnanna um borð í skipinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×