Sport

Mörg lítil markmið hjá Val

Elísabet Gunnarsdóttir skilaði Íslandsmeistaratitlinum á Hlíðarenda á sínu fyrsta ári með liðinu. "Ég held að við höfum sýnt í þessum leik að við erum vel að þessum titli komnar. Við lögðum ótrúlega mikla vinnu í þetta og við stóðumst prófið. Við erum búnar að þjappa hópnum mikið saman og liðið er búið að fara langt á leikgleði og samstöðu. Ég hef stelpunum og gerði það einnig í yngri flokkunum að þegar þær vinna eins og fjölskylda þá stoppar þær enginn," sagði Elísabet sem hefur skilað mörgum titlum í hús sem þjálfari yngri flokkanna en nú hefur hún skilað þeim stóra í hús. Elísabet sem er greinilega farin að hugsa um það sem tekur við "Framtíðin er mjög björt hér í Val og það eru líka yngri stelpur sem eru að koma upp. Við erum búnar að vinna að mörgum litlum markmiðum í ár, öðruvísi markmiðum og þær hafa klárað þau öll og það hefur allt gengið. Við reyndum að bæta litla þætti í leik okkur og náð upp meiri stöðugleika og allir þessi litlu þættir sem við höfum lagað hafa skilað okkur. Við eigum enn eftir að bæta okkur svo mikið og nú erum við búnar að vinna okkur sæti í Evrópukeppninni og þar er komið nýtt stórt markmið," sagði Elísabet en það er einn bikar eftir á þessu sumri. "Við höfum algjörlega einbeitt okkur að þessu og engu öðru. Nú er þetta í höfn og nú getum við farið að einbeita okkur að bikarnum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×