Erlent

Saddam afhentur á morgun

Írakar fá lögsögu yfir Saddam Hússein á morgun og hann verður leiddur fyrir írakskan dómstól. Talið er að ein milljón manna hafi látið lífið í stjórnartíð hans. Það var Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, sem tilkynnti um það að Írakar fengju lögsögu yfir Saddam. Hann lofaði opnum og heiðarlegum réttarhöldum. Allawi viðurkenndi að margir Írakar ættu harma að hefna gegn Saddam en talið er að milljón manns hafi látið lífið undir ógnarstjórn hans. Þá eru talin með stríð hans við Íran og Persaflóastríðin svokölluðu. Forsætisráðherrann fullyrti að engu að síður myndi Saddam njóta alls réttar sem sakborningur. Sérstakur dómstóll verður settur yfir honum og hann hefur fengið 75 milljónir dollara til réttarhaldanna. Búist er við að málareksturinn taki langan tíma. Margir háttsettir Írakar hafa á undanförnum vikum sagt að dauðadóms verði örugglega krafist yfir forsetanum fyrrverandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×