Fréttir

Fréttamynd

Vínrækt á Íslandi

Landbúnaður á Íslandi gæti átt eftir að njóta góðs af hlýnun jarðar í framtíðinni. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Gluggans. Þar segir að á fyrirlestri sem Trausti Valsson umhverfisfræðingur hélt nýlega á vegum þóunarfélags Hrunamanna hafi ýmislegt komið í ljós. Meðal annars að í framtíðinni verði hægt að rækta hér sitthvað sem ekki hefur verið hægt áður. Tekur fréttamaður Gluggans sem dæmi jarðarber og vínber.

Innlent
Fréttamynd

Sala á geisladiskum hefur hríðfallið

Sala á geisladiskum hefur hríðfallið í Bandaríkjunum á þessu ári miðað við söluna árin þar á undan. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs hafa aðeins selst 89 milljónir geisladiska miðað við 112 milljónir á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. Aukningin á niðurhali á stafrænni tónlist vegur ekki þarna upp á móti því neytendur eiga það til að hala aðeins niður þeim lögum sem þeir kjósa að hlusta á af hverri plötu í stað þess að hala niður allri plötunni.

Viðskipti erlent
Fréttamynd

Keypti dagbækur Önnu Nicole fyrir 33 milljónir

Tvær dagbóka Önnu Nicole Smith hafa verið seldar þýskum auðjöfri. Dagbækurnar eru frá árunum 1992 og 1994 og eru handskrifaðar af Önnu Nicole. Að því er fram kemur á danska fréttavefnum bt.dk þá hyggst þýski auðjöfurinn selja brot úr dagbókunum þeim fjölmiðlum sem áhuga á því hafa.

Erlent
Fréttamynd

Elliðaá flæddi yfir bakka sína

Víða eru talsverðir vatnavextir vegna hlýinda og rigninga. Miklir vatnavextir eru í Elliðaám og við Sandskeið þessa dagana og hafa Elliðaár sem og Hólmsá flætt yfir bakka sína. Spáð er að hiti verði allt að 7 stig um helgina suð-vestanlands þannig að ár og lækir gætu bólgnað meira. Á sléttlendi hafa víða myndast stórar tjarnir og sumstaðar er eins og yfir stöðuvötn að líta því frost er í jörðu, og það kemur í veg fyrir að vatnið sjatni ofan í jarðveginn. Þá hefur hálku verið að taka upp af vegum og er hún horfin á láglendi, en hálkublettir eru sumstaðar enn á suður og vesturlandi, einkum á fjallvegum.

Innlent
Fréttamynd

Kveiktu í fíkniefnum

Yfirvöld í Bólívíu og Perú lögðu fyrir helgi eld að um 35 tonnum af eiturlyfjum. Götuverðmætið er sagt mörg hundruð milljónir króna. Hald var lagt á efnin í fjölmörgum aðgerum lögreglu í báðum löndum.

Erlent
Fréttamynd

Sjóliðar fluttir til Teheran

Evrópusambandið og bresk stjórnvöld krefjast þess að Íranar láti þegar lausa 15 breska sjó- og landgögnuliða sem teknir voru höndum á Persaflóa í gær. Stjórnvöld í Teheran segjast geta sannað það að mennirnir hafi farið ólöglega inn í íranska landhelgi.

Erlent
Fréttamynd

Biður menn að ,,perrast" annars staðar

Stefán Konráðsson, framkvæmdarstjóri ÍSÍ, gerir karlakvöld íþróttafélaga að umtalsefni sínu í pistli á vef ÍSÍ í gær. Þar segist hann hafa heyrt af því að nýlega hafi íþróttafélag haldið herrakvöld þar sem erótískar dansmeyjar hafi verið fengnar til að skemmta gestunum. Stefán segir í pistlinum að sér hafi verið brugðið við þetta sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem varð í kringum mansal og vændi í kringum Ólympíuleikana í Aþenu og Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu í Þýskalandi síðastliðið sumar.

Innlent
Fréttamynd

Bandaríkjaforseti ætlar að beita neitunarvaldi

Bandaríkjaforseti ætlar að beita neitunarvaldi á frumvarp sem felur í sér heimkvaðningu bandarískra bardagasveita frá Írak fyrir fyrsta september á næsta ári. Varaforseti Íraks segist fullviss um að hægt verði að senda erlenda hermenn heim frá Írak fyrir þann tíma.

Erlent
Fréttamynd

40% kjósenda skráðir í stjórnmálaflokk

Áttatíu og fimm þúsund manns eru skráðir í stjórnmálaflokka samkvæmt upplýsingum úr flokksskrám stjórnmálaflokkanna. Fréttablaðið segir frá þessu í dag. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir tölurnar gefa til kynna að fleiri séu skráðir í stjórnmálaflokka hér á landi en víðast hvar annars staðar.

Innlent
Fréttamynd

Ný ályktun gegn Íran samþykkt í kvöld

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna greiðir í kvöld atkvæði um nýja ályktun gegn Írönum. Í gærkvöldi var gengið frá texta ályktunarinnar sem felur í sér frekari refsiaðgerðir vegna kjarnorkuáætlunar stjórnvalda í Teheran. Fulltrúi Breta í ráðinu greindi frá þessu og sagðist þess fullviss að ályktunin yrði samþykkt einróma.

Erlent
Fréttamynd

Arðsamasta vegagerð sem hægt er að ráðast í

Sundabraut er arðsamasta vegagerð sem hægt er að ráðast í á Íslandi samkvæmt umhverfismati Vegagerðarinnar, segir Björn Ingi Hrafnsson stjórnarformaður Faxaflóahafna. Hann segir Sundabraut ekki bara til hagsbóta fyrir Faxaflóahafnir og íbúa á höfuðborgarsvæðinu, því hún muni stytta leiðir umtalsvert og breyta miklu fyrir íbúa á Vesturlandi og Norðurlandi.

Innlent
Fréttamynd

Stillt til friðar í Austur-Kongó

Stjórnarherinn í Austur-Kongó stillti til friðar í höfuðborginni, Kinsjasa, í gærkvöldi. Til harðra bardaga hefur komið þar í vikunni milli stjórnarhersins og fylgismanna Jean-Pierre Bemba, leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Yfirvöld í Austur-Kongó hafa sakað Bemba um landráð og hefur hann leitað hælis í sendiráði Suður-Afríku.

Erlent
Fréttamynd

Vilja færa málefni aldraðra og öryrkja til sveitarfélaga

Í gær var gengið frá skipun fulltrúa í nefnd sem á að koma með tillögur um hverning flytja má málefni aldraðra og öryrkja frá ríki til sveitarfélaga. Landsþing sveitarfélaga var haldið í Reykjavík í gær og þar kom fram tillaga þar sem skorað er á menntamálaráðherra að taka jákvætt í hugmyndir sveitarfélaga um að taka einnig yfir rekstur framhaldsskóla í tilraunaskyni, og hefja sem fyrst undirbúning að því í samvinnu við sveitarfélögin.

Innlent
Fréttamynd

Ætlar ekki að dagsetja heimkvaðningu hermanna

Bush Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í gærkvöldi að hann ætlaði að beita neitunarvaldi sínu á frumvarp sem felur í sér heimkvaðningu bandarískra bardagasveita frá Írak fyrir 1. september á næsta ári. Um er að ræða frumvarp um aukafjárveitingu til stríðsrekstursins í Afganistan og Írak en dómkratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings bættu við heimkvaðningarákvæðinu áður en það var samþykkt.

Erlent
Fréttamynd

Þyrstur þjófur staðinn að verki

Lögreglan á Akureyri handtók í nótt innbrotsþjóf þar sem hann sat í hægindum sínum og blandaði sér drykk. Maðurinn hafði brotist inn á veitingastað í bænum og eitthvað verið þyrstur því hans fyrsta verk var að fara á barinn og blanda sér í glas. Lögreglan handtók manninn og gistir hann nú fangageymslur. Hann verður yfirheyrður síðar í dag. Ekki fylgdi sögunni hvaða drykk þjófurinn teigaði.

Innlent
Fréttamynd

Segja sjóliða hafa brotið gegn alþjóðalögum

Íranar segja 15 breska sjóliða sem þeir handtóku í gær hafa siglt án leyfis inn í íranska landhelgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá íranska utanríkisráðuneytinu þar sem aðgerðir sjóliðanna eru fordæmdar og þær sagðar brjóta gegn alþjóðalögum.

Erlent
Fréttamynd

Tveir menn teknir með fíkniefni

Lögreglan á Suðurnesjum lagði hald á um 20 grömm af amfetamíni og 3 grömm af hassi í gærkvöldi og handtók tvo menn. Lögreglunni barst ábending um mann á hótelherbergi í bænum sem grunaður var um að vera með fíkniefni í fórum sínum. Við leit í herberginu fann lögregla 7 grömm af amfetamíni og 3 grömm af hassi. Maðurinn játaði við yfirheyrslur að hafa átt efnin og var látinn laus.

Innlent
Fréttamynd

Dagbækur Önnu seldust á 35 milljónir

Tvær dagbækur sem Anna Nicole Smith hélt voru í dag seldar uppboðsvefnum eBay fyrir meira en hálfa milljón dollara, eða um 35 milljónir íslenskra króna. Kaupandinn sagðist ætla að nota þær til þess að skrifa bók um Önnu. Dagbækurnar fundust þegar að hreingerningamaður var að fara í gegnum hús sem að Anna bjó í á meðan hún var við tökur á bíómyndum árið 1992 og 1994. Hann seldi þær síðan til safnara sem síðan geymdi þær allt þar til Anna lést og seldi þær nú á eBay.

Erlent
Fréttamynd

Íranar segja Breta hafa verið í órétti

Stjórnvöld í Íran halda því fram að sjóliðarnir bresku sem þau handtóku í dag hafi verið á írönsku yfirráðasvæði. Utanríkisráðherra Breta, Margaret Beckett, þvertekur hins vegar fyrir þær fullyrðingar.

Erlent
Fréttamynd

Friður kominn á í Kinshasa

Kongóski herinn hefur náð að stilla til friðar í höfuðborginni Kinshasa á ný. Síðastliðna tvo daga hafa harðir bardagar átt sér stað á milli fylgismanna Jean-Pierre Bemba, stjórnarandstöðuleiðtoga, og stjórnarhersins. Bemba, sem er fyrrum uppreisnarleiðtogi, hefur verið sakaður um landráð af yfirvöldum í Kongó.

Erlent
Fréttamynd

Kosið í Hong Kong á sunnudaginn

Á sunnudaginn fara fram í Hong Kong fyrstu kosningar, þar sem kosið er um fleiri en einn frambjóðanda, síðan Bretar létu svæðið af hendi til Kínverja fyrir tæpum tíu árum. Í henni verður kosið á milli Donald Tsang, sem nú er framkvæmdastjóri svæðisins, og Alan Leong, en hann er lýðræðissinni.

Erlent
Fréttamynd

Íranar vilja samstarf með Evrópuþjóðum

Íranar ætla sér að leggja fram nokkrar tillögur fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á morgun til þess að reyna að komast hjá refsiaðgerðum vegna kjarnorkuáætlunar þeirra. Ein af þeim er að Evrópuþjóðir taki þátt í kjarnorkuáætluninni og fjárfesti í henni.

Erlent
Fréttamynd

Wall Street að ná sér á strik

Vikan sem er að líða var sú besta á Wall Street undanfarin fjögur ár. Uppgangurinn er að mestu leyti að þakka auknum kaupum á fasteignum en fasteignamarkaðurinn var farinn að hægja verulega á sér.

Viðskipti erlent
Fréttamynd

Ætla að bæta gæludýraeigendum tapið

Fyrirtækið Menu Foods hefur lofað að bæta gæludýraeigendum sem misstu gæludýr sín vegna eitrunar í mat frá fyrirtækinu allan skaða sem þeir urðu fyrir. Að því gefnu að eigendurnir geti sannað að dýrin hafi drepist vegna eitrunar úr gæludýramat fyrirtækisins.

Erlent
Fréttamynd

Bush að beita neitunarvaldi

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hótaði því í dag að beita neitunarvaldi gegn tillögu demókrata um að kalla alla bardagabúna hermenn heim frá Írak fyrir september 2008. Tillagan hefur þegar verið samþykkt í fulltrúadeild bandaríska þingsins.

Erlent
Fréttamynd

Framdi sjálfsmorð í beinni

Tveggja barna breskur faðir sem framdi sjálfsmorð í beinni útsendingu á netinu átti við veikindi að stríða að sögn eiginkonu hans. Lögregla fann Kevin Whitrick, 42 ára, látinn á heimili sínu stuttu eftir hún var látin vita. Einn af áhorfendum á netinu hafði þá hringt í lögregluna.

Erlent
Fréttamynd

Forseti Írans ekki til Bandaríkjanna

Forseti Írans, Mahmoud Amhadinejad, hefur aflýst ferð sinni til höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna þar sem Bandaríkin voru of lengi að gefa út vegabréfsáritanir fyrir fylgdarlið hans. Sendiherra Íran hjá Sameinuðu þjóðunum, Javad Zarif, skýrði frá þessu í kvöld. „Forsetinn kemur ekki." sagði Zarif við fréttamenn í kvöld.

Erlent
Fréttamynd

Þriggja bíla árekstur en engan sakaði

Þriggja bíla árekstur varð á Holtavörðuheiðinni um sex leytið í kvöld. Engin slys urðu á fólki en bílarnir þrír enduðu allir utan vegar. Töluverð hálka og slæmt veður var á slysstað og er talið að hálkan hafi valdið slysinu. Lögreglan í Borgarnesi er nú á staðnum og hefur lokað heiðinni á meðan bílunum er komið aftur upp á veginn.

Innlent
Fréttamynd

Knútur vinsæll

Berlínarbúar sem og aðkomumenn flykktust í dýragarðinn í Berlín í dag til að berja ísbjarnarhúninn Knút augum. Örlög hans hafa verið Þjóðverjum hugleikin síðustu daga en móðir hans hafnaði Knúti og bróður hans skömmu eftir að þeir komu í heiminn í byrjun desember. Bróðirinn drapst en sjálfur dafnar Knútur vel hjá þjálfara sínum.

Erlent
Fréttamynd

Stórtjón í fárviðri á Akureyri

Stórtjón varð á Akureyri í gærkvöld þegar þakdúkur fauk af fjölbýlishúsi í fárviðri. Minnstu munaði að íbúi stórslasaðist í hamaganginum, vatn streymdi inn í íbúðir og íbúar sváfu ekki dúr.

Innlent