Minnesota tekur á móti Memphis Í nótt fer fram síðasta umferðin í deildarkeppninni í NBA deildinni. Leikur Minnesota Timberwolves og Memphis Grizzlies verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV á Digital Ísland og hefst klukkan 12 á miðnætti. Í kvöld ræðst svo endanlega hver uppröðun liða verður í úrslitakeppninni, þar sem Memphis verður í eldlínunni en leikmenn Minnesota fara í sumarfrí eftir leik kvöldsins. Sport 19. apríl 2006 21:45
Montgomery þjálfar Warriors áfram Chris Mullin, stjórnarformaður Golden State Warriors, hefur tilkynnt að þjálfari liðsins Mike Montgomery muni stýra liðinu áfram á næsta tímabili þrátt fyrir lélegt gengi þess enn eitt árið í vetur. Golden State hefur ekki komist í úrslitakeppnina í 12 ár í röð og olli gríðarlegum vonbrigðum í ár. Montgomery kom inn í NBA deildina fyrir tveimur árum eftir árangursríkan feril í háskólaboltanum, en hefur gengið erfiðlega að aðlagast atvinnumennskunni. Sport 19. apríl 2006 20:30
Skammarleg framkoma Webber og Iverson Chris Webber og Allen Iverson eru ekki vinsælustu mennirnir í Philadelphia í dag eftir að þeir mættu of seint í síðasta heimaleik liðs síns í gærkvöldi og gerðu eiganda, þjálfara og stuðningsmenn Philadelphia 76ers að fíflum. Þeir félagar áttu reyndar báðir við smávægileg meiðsli að stríða og því stóð ekki til að láta þá spila, en þeir eiga báðir eftir að svara fyrir framkomu sína með sektum eða jafnvel leikbönnum. Sport 19. apríl 2006 07:00
Arenas og Redd skoruðu báðir 43 stig Sjónvarpsleikurinn á NBA TV í gærkvöldi var hin besta skemmtun en þar bar Washingto sigurorð af Milwaukee á heimavelli sínum 116-103, þar sem Gilbert Arenas hjá Washington og Michael Redd skoruðu 43 stig hvor. Það voru þó heimamenn sem höfðu sigur og eru í góðri stöðu með að ná fimmta sætinu í úrslitakeppninni í Austurdeildinni. Sport 19. apríl 2006 05:45
Allt undir hjá Washington og Milwaukee Það verður allt í járnum í kvöld þegar Washington Wizards og Milwaukee Bucks mætast í NBA deildinni, en leikurinn verður í beinni útsendingu á NBA TV á Digital Ísland. Fjögur lið eru enn að kljást um uppröðun í síðustu fjögur sætin inn í úrslitakeppnina í Austurdeildinni og eru nánast jöfn í einum hnapp, en auk þessara liða eru Indiana og Chicago með nánast sömu stöðu og vilja t.d. öll forðast það í lengstu lög að mæta Detroit Pistons í fyrstu umferðinni. Sport 18. apríl 2006 21:36
San Antonio tók efsta sætið í Vesturdeildinni Meistarar San Antonio tryggðu sér í nótt efsta sætið í Vesturdeildinni þegar liðið burstaði Utah Jazz á heimavelli sínum 115-82 og verður liðið því með heimavallarréttinn alla leið í úrslitin. Manu Ginobili skoraði 18 stig fyrir San Antonio og nýliðinn Deron Williams skoraði sömuleiðis 18 fyrir Utah. Sport 18. apríl 2006 13:03
Ljóst hvaða lið ná í úrslitakeppnina Los Angeles Lakers, Sacramento Kings og Chicago Bulls tryggðu sér í nótt sæti í úrslitakeppninni í NBA þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Þá vann Detroit 64. leik sinn í vetur sem er félagsmet og ljóst að liðið verður með heimavallarréttinn alla úrslitakeppnina. Sport 17. apríl 2006 06:31
Ben Gordon skaut Washington í kaf Chicago Bulls heldur dauðahaldi í áttunda sætið í Austurdeildinni í NBA eftir nauman en gríðarlega mikilvægan sigur á Washington Wizards í nótt 103-101. Ben Gordon var maðurinn á bak við sigur Chicago, en hann skoraði 32 stig í leiknum og hitti úr öllum níu þriggja stiga skotum sínum sem er jöfnun á NBA meti Latrell Sprewell frá árinu 2003. Sport 15. apríl 2006 06:56
Yao Ming gæti misst úr hálft ár Carroll Dawson, framkvæmdastjóri Houston Rockets, segir að kínverski miðherjinn Yao Ming þurfi að gangast undir uppskurð eftir að hann fótbrotnaði í leik gegn Utah Jazz í fyrrinótt og verði væntanlega frá keppni í fjóra til sex mánuði í kjölfarið. Þetta þýðir að Ming verður varla kominn almennilega í gang með liði Houston á ný fyrr en halla tekur í næstu jól. Sport 12. apríl 2006 21:30
Andre Miller rausnarlegur við háskólann sinn Bakvörðurinn Andre Miller hjá Denver Nuggets er ekki búinn að gleyma því hvað háskólaganga hans í Utah reyndist honum vel á sínum tíma og í gær gaf Miller hvorki meira né minna en 500.000 dollara eða 38 milljónir króna til gamla skólans síns. Peningana á meðal annars að nota til að byggja upp íþróttaaðstöðuna við skólann. Sport 12. apríl 2006 18:45
Stórleikur Detroit og Cleveland í beinni Það verður sannkallaður stórleikur í beinni útsendingu úr NBA körfuboltanum á Sýn í kvöld þar sem efsta lið deildarinnar Detroit Pistons tekur á móti LeBron James og félögum í Cleveland Cavaliers. Leikurinn er merkilegur fyrir þær sakir að sigur í kvöld þýðir að Detroit setur félagsmet yfir flesta sigra á einu tímabili, en sigur fer líka mjög langt með að tryggja liðinu heimavallarréttin alla leið í úrslitakeppninni sem hefst fljótlega. Sport 12. apríl 2006 16:45
Meistararnir halda sínu striki San Antonio Spurs lagði Seattle Supersonics 104-95 á heimavelli sínum í nótt og er í lykilstöðu með að ná efsta sætinu í Vesturdeildinni fyrir úrslitakeppnina. Á meðan Tim Duncan er enn að ná sér eftir flensu, var Tony Parker besti maður Spurs í nótt og skoraði 27 stig og átti 9 stoðsendingar þó hann segðist sjálfur vera búinn að smitast af þessari sömu flensu. Sport 12. apríl 2006 05:52
Yao Ming fótbrotinn Óheppni NBA-liðs Houston Rockets hefur ekki riðið við einteyming í vetur og í nótt fótbrotnaði kínverski risinn Yao Ming í leik gegn Utah Jazz. Framherjinn Andrei Kirilenko steig ofan á fótinn á Ming með þeim afleiðingum að bein brákaðist í vinstri fæti hans og er hann því úr leik það sem eftir lifir tímabils. Þetta kórónar mikið meiðslatímabil hjá liðinu, því burðarásar liðsins Ming og Tracy McGrady hafa verið meiddir meira og minna í allan vetur og liðið fjarri því að komast í úrslitakeppnina. Sport 11. apríl 2006 11:45
Denver vann Norðvesturriðilinn Denver tryggði sér í nótt efsta sætið í Norðvesturriðlinum í NBA með 110-98 sigri á Portland og er þetta í fyrsta skipti í 18 ár sem liðið vinnur riðil sinn. Carmelo Anthony skoraði 28 stig fyrir Denver en Sebastian Telfair og Voshon Lenard skoruðu 21 stig fyrir Portland. Sport 11. apríl 2006 08:23
Lakers vann grannaslaginn Los Angeles Lakers sigraði í nótt granna sína Clippers 100-83 í NBA deildinni og kom þar með í veg fyrir að Clippers hefði betur í innbyrðisviðureignum liðanna í fyrsta sinn síðan árið 1993. Kobe Bryant skoraði 17 af 38 stigum sínum í fjórða leikhlutanum, en Elton Brand og Sam Cassell skoruðu 24 stig hvor fyrir Clippers - sem þó er enn ofar í töflunni. Sport 10. apríl 2006 08:53
Kidd með áttundu þrennuna í sigri Nets Fimm leikjum er þegar lokið í NBA deildinni í kvöld. New Jersey Nets komst aftur á sigurbraut og lagði Milwaukee Bucks 95-83. Jason Kidd náði áttundu þrennu sinni í vetur og þeirri 75. á ferlinum þegar hann skoraði 11 stig, hirti 12 fráköst og gaf 10 stoðsendingar hjá Nets. Vince Carter var stigahæstur með 25 stig, en hjá Milwaukee skoraði TJ Ford mest, 19 stig. Leikur Seattle og Phoenix verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV klukkan eitt í nótt. Sport 9. apríl 2006 22:17
Cleveland stöðvaði New Jersey LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers stöðvuðu í kvöld 14 leikja sigurgöngu New Jersey Nets í NBA deildinni með 108-102 sigri á útivelli. LeBron James fór á kostum í fjórða leikhlutanum og tók þá yfir leikinn eins og svo oft áður, en hann skoraði 18 af 37 stigum sínum í lokaleikhlutanum. Þetta var níundi leikurinn í röð sem hinn ungi James skorar 35 stig eða meira, sem er næstlengsta rispa sinnar tegundar í deildinni síðan árið 1970. Sport 8. apríl 2006 22:15
Dallas setur pressu á San Antonio Dallas Mavericks setti mikla pressu á meistara San Antonio Spurs í nótt þegar liðið hafði betur 92-86 í leik liðanna í San Antonio. Það var Þjóðverjinn Dirk Nowitzki sem gerði gæfumuninn hjá Dallas og skoraði 19 af 30 stigum sínum í síðari hálfleik. Nú hefur San Antonio því aðeins eins leiks forystu á Dallas á toppi Vesturdeildarinnar, en baráttan um efsta sætið verður gríðarlega hörð á lokasprettinum. Sport 8. apríl 2006 14:18
Orlando - Detroit í beinni Leikur Orlando Magic og Detroit Pistons verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV rásinni á Digital Ísland og hefst útsending um klukkan 23 í kvöld. Detroit er enn með bestan árangur allra liða í deildinni og er í góðri aðstöðu til að tryggja sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni. Sport 7. apríl 2006 21:52
Szczerbiak þarf í uppskurð Framherjinn Wally Szczerbiak hjá Boston Celtics leikur ekki meira með liðinu á tímabilinu því hann mun á næstu dögum leggjast undir hnífinn og fara í uppskurð á hné. Szczerbiak hefur verið slæmur í hnénu í allan vetur og því var ákveðið að skera hann upp strax. Hann hefur skoraði 17,5 stig að meðaltali í leik síðan hann gekk til liðs við Boston frá Minnesota eftir áramótin. Sport 7. apríl 2006 20:15
Enn sigrar New Jersey Lið New Jersey Nets vann í nótt sinn 14. sigur í röð í NBA deildinni þegar liðið skellti Charlotte Bobcats 113-102 á heimavelli sínum. Detroit Pistons lagði Miami á útivelli 95-82 og Carmelo Anthony tryggði Denver 110-108 sigur á LA Lakers með skoti á síðustu sekúndum framlengingar. Sport 7. apríl 2006 08:00
Chicago upp fyrir Philadelphia Lið Chicago Bulls vann í nótt afar mikilvægan sigur á Philadelphia 76ers 99-92 í NBA deildinni og höfðu liðin því sætaskipti í Austurdeildinni. Chicago hefur verið á góðu róli undanfarið á meðan illa hefur gengið hjá Philadelphia og nú er útlit fyrir að Chicago nái inn í úrslitakeppnina. Allen Iverson skoraði 26 stig fyrir Philadelphia, en Andres Nocioni og Ben Gordon skoruðu 21 stig hvor fyrir Chicago. Sport 6. apríl 2006 15:45
Stoudemire úr leik Framherjinn Amare Stoudemire spilar ekki meira með liði Phoenix Suns í vetur eftir að í ljós kom að hann þarf að fara í enn einn hnéuppskurðinn. Í þetta sinn er það þó hægra hnéð og uppskurðurinn minniháttar, en þetta þýðir engu að síður að hann getur ekki spilað með liði sínu í úrslitakeppninni eins og bjartsýnustu menn í herbúðum Phoenix höfðu vonast eftir. Þetta eru skelfileg tíðindi fyrir hinn gríðarlega efnilega Stoudemire, sem nú þarf að bíða fram á næsta haust með að sýna listir sínar á ný í NBA. Sport 5. apríl 2006 20:15
Detroit vann 60. leikinn Detroit Pistons varð í nótt fyrsta liðið í NBA til að vinna 60 leiki í vetur þegar liðið skellti New Orleans 101-93. Detroit var án Rasheed Wallace í leiknum en hann tók út leikbann fyrir tæknivillur. Detroit hafði fyrir leikinn notað sama byrjunarliðið í 73 fyrstu leikjum vetrarins, sem er met. Antonio McDyess lék vel í fjarveru Wallace og skoraði 26 stig og hirti 14 fráköst, en Chris Paul og David West skoruðu 24 stig hvor fyrir New Orleans. Sport 5. apríl 2006 14:15
Utah - San Antonio í beinni Klukkan tvö í nótt verður leikur Utah Jazz og San Antonio Spurs sýndur í beinni útsendingu á NBA TV-rásinni á Digital Ísland. Lið þessi eru á gjörólíkum stað í töflunni, því meistarar San Antonio eru í efsta sæti Vesturdeildarinnar en Utah á litla möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Sport 4. apríl 2006 22:22
Barkley, Dumars og Wilkins í heiðurshöllina Í gær var tilkynnt um nýjustu einstaklingana sem vígðir verða inn í körfuboltaheiðurshöllina í Bandaríkjunum og á meðal þeirra sem komust í gegn voru leikmennirnir Charles Barkley, Joe Dumars og Dominique Wilkins, sem gerðu garðinn frægan í NBA á níunda og tíunda áratugnum. Sport 4. apríl 2006 15:15
Tólf í röð hjá New Jersey Lið New Jersey Nets hefur heldur betur verið á sigurgöngu í NBA deildinni að undanförnu og í nótt skellti liðið Miami og vann sinn 12. leik í röð. Vince Carter fór á kostum í liði New Jersey og skoraði 43 stig, en Dwayne Wade skoraði 32 stig fyrir Miami. Sport 3. apríl 2006 14:27
Reggie Miller heiðraður í Indiana Skotbakvörðurinn Reggie Miller var í nótt heiðraður sérstaklega Indiana Pacers þegar númerið hans var hengt upp í rjáfur í höll félagsins. Miller lagði skóna á hilluna í fyrra eftir að hafa spilað í 18 ár með liði Indiana, en hann hefur meðal annars skorað fleiri þriggja stiga körfur en nokkur annar leikmaður í sögu deildarinnar. Hann var fimm sinnum valinn í stjörnuliðið á ferlinum er minnst sem einnar bestu skyttu í sögu NBA. Sport 31. mars 2006 15:45
San Antonio lagði Lakers Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Meistarar San Antonio lögðu LA Lakers á útivelli 96-85. Tim Duncan skoraði 20 stig og hirti 13 fráköst fyrir San Antonio en Kobe Bryant var að venju stigahæstur í liði Los Angeles með 23 stig. Þá vann Phoenix sigur á Indiana 114-104 á útivelli. Shawn Marion skoraði 29 stig fyrir Phoenix og Steve Nash var með 15 stig og 13 stoðsendingar, en Peja Stojakovic skoraði 25 stig fyrir Indiana. Sport 31. mars 2006 14:26
LeBron James loksins í úrslitakeppnina Cleveland Cavaliers tryggði sér í nótt sæti í úrslitakeppninni í NBA með góðum sigri á Dallas á heimavelli sínum 107-94. LeBron James hjá Cleveland hélt upp á að vera kominn í úrslitakeppnina í fyrsta skiptið á ferlinum með því að salla 46 stigum á Dallas í leiknum, en Dirk Nowitzki var stigahæstur gestanna með 29 stig. Þetta var í fyrsta sinn í vetur sem Dallas tapar tveimur leikjum í röð. Sport 30. mars 2006 05:43