Sport

Dallas Mavericks er loksins komið í NBA-úrslitin

Það voru stór tímamót fyrir Dirk og Dallas í nótt þegar Mavericks tryggðu sér sæti í NBA-úrslitunum.
Það voru stór tímamót fyrir Dirk og Dallas í nótt þegar Mavericks tryggðu sér sæti í NBA-úrslitunum. AP

Dallas Mavericks er loksins komið í NBA-úrslitin í körfubolta eftir 102-93 sigur á Phoenix í sjötta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem Dallas-liðið kemst svo langt en liðið hefur margoft verið líklegt til afreka á undanförnum árum. Dallas vann seinni hálfleikinn 63-42 og í fyrsta sinn í 35 ár munu tveir nýliðar því berjast um NBA-titilinn því bæði Dallas og mótherjar þeirra Miami eru komin í úrslitin í fyrsta sinn.

Phoenix byrjaði leikinn vel og það stefndi ekkert í annað en sjöunda leik í upphafi hans. Dirk Nowitzki, sem hafði skorað 50 stig í leiknum á undan, skoraði aðeins 1 stig í fyrsta leikhlutanum og Suns-liðið var strax komið með 15 stiga forustu. Nowitzki og félagar hans í Dallas voru þó ekkert á því að gefast upp og Þjóðverjinn snjalli skoraði 23 stig í síðustu þremur leikhlutanum og leiddi endurkomu Mavericks. Josh Howard var með 20 stig og 15 fráköst, Jerry Stackhouse skoraði 19 stig og Jason Terry bætti við öðrum 17 fyrir Dallas í þessum leik en hjá Phoenix var Boris Diaw með 30 stig og 11 fráköst og Steve Nash bætti við 19 stigum, 9 stoðsendingum og 6 fráköstum.

Fyrsti úrslitaleikur Dallas og Miami verður á fimmtudagskvöldið kemur og fer hann fram í Dallas þar sem Mavericks voru með betra vinningshlutfall á tímabilinu en Dallas vann einnig báða innbyrðisleiki liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×