Erlent

Brand fær að ganga laus á meðan réttað er yfir honum

Samúel Karl Ólason skrifar
Russel Brand fyrir utan dómshúsið í Westminster í Lundúnum í morgun.
Russel Brand fyrir utan dómshúsið í Westminster í Lundúnum í morgun. AP/Alberto Pezzali

Breski grínistinn Russell Brand mætti í dómsal í morgun, í fyrsta sinn eftir að hann var ákærður fyrir nauðganir og kynferðisbrot. Þar var tekið fyrir hvort hann yrði hnepptur í varðhald á meðan réttarhöld gegn honum standa yfir en hann mun fá að ganga laus gegn ákveðnum skilyrðum.

Brand tjáði sig ekki sjálfur í dómsal í morgun, fyrir utan það að staðfesta nafn sitt, fæðingardag, heimilisfang og það að hann skyldi þau skilyrði sem honum hafa verið sett á meðan hann gengur laus. Þá tók hann ekki afstöðu gagnvart ákærunum gegn honum.

Honum hefur verið gert að mæta alltaf í dómsal á meðan réttað er yfir honum og að gera yfirvöldum ljóst hvar hann heldur til, hvort sem það er í Bretlandi eða í Bandaríkjunum, þar sem hann býr nú.

Hann hefur verið ákærður fyrir að hafa nauðgað konu í Bournemouth árið 1999. Fyrir að hafa ráðist kynferðislega á konu í Westminster í Lundúnum árið 2001. Fyrir að hafa nauðgað konu í sama hverfi árið 2004 og fyrir að hafa ráðist kynferðislega á konu í Lundúnum á árunum 2004 og 2005.

Sjá einnig: Russell Brand ákærður fyrir nauðganir og kynferðisbrot

Brand sló í gegn sem uppistandari áður en hann gerði garðinn frægan í sjónvarpi og útvarpi. Þá hefur hann birst í fjölda kvikmynda, meðal annars Forgetting Sarah Marshall.

Ásakanirnar gegn Brand, sem er 49 ára gamall, litu fyrst dagsins ljós í sameiginlegri rannsókn Sunday Times, The Times og Channel 4 sem birt var í september 2023.

Hann hefur tjáð sig um ásakanirnar en þá sagðist hann meðal annars hafa verið hálfviti, eiturlyfja- og kynlífsfíkill en aldrei hefði hann verið nauðgari.

Í frétt BBC segir að mikill fjöldi blaðamanna, ljósmyndara og myndatökumanna hafi verið fyrir utan dómshúsið þegar Brand mætti þangað í morgun. Það hafi tekið hann langan tíma að komast inn en hann hafi ekki svarað neinum fyrirspurnum eða tjáð sig með öðrum hætti.

Brand á næst að mæta í dómsal þann 30. maí og eiga réttarhöldin gegn honum að hefjast þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×