Viðskipti innlent

Ráðinn for­stjóri Arctic Fish

Atli Ísleifsson skrifar
Daníel Jakobsson hefur gegnt stjórnunarstöðu hjá Arctic Fish frá árinu 2021.
Daníel Jakobsson hefur gegnt stjórnunarstöðu hjá Arctic Fish frá árinu 2021. Arctic Fish

Fiskeldisfélagið Arctic Fish hefur ráðið Daníel Jakobsson sem forstjóra frá og með 1. maí 2025. Daníel tekur við stöðunni af Stein Ove Tveiten.

Í tilkynningu frá Arctic Fish segir að Daníel hafi gegnt stjórnunarstöðu hjá Arctic Fish frá árinu 2021 og veitt viðskiptaþróun fyrirtækisins forstöðu. Á þeim tíma hafi hann öðlast yfirgripsmikla þekkingu á starfsemi og stefnu fyrirtækisins. 

Þá segir að leiðtogahæfileikar Daníels, sérfræðiþekking og djúpar rætur í samfélaginu á Vestfjörðum geri hann vel til þess fallinn að leiða fyrirtækið í því vaxtarskeiði sem framundan er hjá Arctic Fish.

Haft er eftir Øyvind Oaland, stjórnarformanni Arctic Fish, að félagið sé mjög ánægt með ráðningu Daníels. „Laxeldi á Íslandi er enn ung atvinnugrein og lykillinn að áframhaldandi árangri veltur á framúrskarandi starfsemi sem byggir á öflugri dýravelferð, ábyrgri umhverfisstefnu og traustum fjárhag ásamt öryggi og velferð starfsfólks. Daníel hefur víðtæka þekkingu á allri starfsemi fyrirtækisins og verður með starfsstöð á Ísafirði,“ segir Oaland. Þá segir að ákvörðun stjórnar Arctic Fish að ráða úr röðum starfsmanna fyrirtækisins varpi ljósi á það markmið að starfsþróun sé grunnurinn að vexti fyrirtækisins til framtíðar.

Einnig er haft eftir Daníel Jakobsson að Arctic Fish gegni mikilvægu hlutverki í atvinnulífi Vestfjarða við framleiðslu á heilsusamlegri fæðu, í sátt við samfélag og umhverfi. „Laxeldi hefur þegar markverð áhrif á útflutningstekjur Íslands og mikil tækifæri eru framundan. Ég er því mjög spenntur að halda áfram á þessari vegferð og þróa enn frekar samkeppnishæfa, framsækna og sjálfbæra starfsemi með öflugum hópi starfsfólks Arctic Fish,“ segir Daníel.

Tveiten verður áfram til ráðgjafar hjá fyrirtækinu til 1. júní næstkomandi. 

Um Arctic Fish segir að það sé leiðandi laxeldisfyrirtæki á Vestfjörðum og hafi yfir að ráða samfelldri og sjálfbærri virðiskeðju, allt frá klaki fiskseiða til sölu afurða. „Félagið hefur 29.800 tonna leyfi til framleiðslu á 10 eldisstaðsetningum í fimm fjörðum, þ.e. Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði, Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi. Seiðaeldi félagsins er í Tálknafirði, fóðurmiðstöð á Þingeyri, skrifstofur á Ísafirði og hátæknilaxavinnsla í Bolungarvík,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×