Upp­gjörið: Haukar - Valur 79-64 | Sópurinn á lofti í Ólafssal

Siggeir Ævarsson skrifar
Lore Devos var frábær í kvöld.
Lore Devos var frábær í kvöld. Vísir / Hulda Margrét

Haukar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaviðureign Bónus-deildar kvenna með 79-46 sigri á Val en Haukar unnu einvígið 3-0 og leikinn í kvöld nokkuð sannfærandi að lokum.

Það virtist vera töluverður skjálfti í báðum liðum í upphafi leiks. Valskonum gekk mjög brösulega að leysa pressuvörn Hauka og Haukar voru að klikka á opnum færum og einnig að tapa boltum klaufalega.

Gestirnir voru skrefinu á undan megnið af fyrsta leikhluta en fjórir þristar frá Diamond Battles lokaði leikhlutanum með þristi, sínum fjórða í jafn mörgum skotum og Haukar leiddu 21-20.

Valskonur tóku svo góða rispu í öðrum leikhluta og náðu að keyra forskotið upp í ellefu stig, 29-40. Þær virtust vera að ná undirtökunum á leiknum á þessum tímapunkti en Haukar svöruðu með því að skora átta síðustu stigin í leikhlutanum, staðan í hálfleik 37-40.

Í hálfleik voru erlendu leikmenn Hauka, þær Lore Devos og Diamond Battles, nánast búnar að skora öll stig liðsins, 28 af 37. Hin níu voru einn þristur á haus á þær Þóru, Agnesi og Tinnu.

Það var ekki mikið skorað í þriðja leikhluta en Haukar skoruðu þó næstum tvöfalt meira en Valsarar og leiddu því 52-48 fyrir lokaleikhlutann. Tveir stórir þristar undir lokin frá Þóru og Agnesi lögðu grunninn að muninum og Agnes átti svo risastór varið skot í lokasókn Vals í leikhlutanum.

Haukakonur settu svo þumalskrúfurnar á í pressuvörn sinni í fjórða leikhluta og gerðu Valskonum virkilega erfitt fyrir. Munurinn var kominn upp í tíu stig þegar tæpar fímm mínútur voru eftir og baráttuþrek Valskvenna virtist einfaldlega vera á þrotum.

Lokatölur 79-64 og Haukar tryggja sig í úrslitaviðureign Bónus-deildar kvenna eftir að hafa sópað Valskonum í sumarfrí.

Atvik leiksins

Varða skotið frá Agnesi Jónudóttur var punkturinn yfir i-ið í lok fyrri hálfleiks fyrir Hauka. Haukar skoruðu átta stig í röð og þegar Valskonur ætluðu að eiga síðasta höggið sendi hún skot Önnu Mariu Kolyandrova nánast upp í rjáfur og sendi henni fingurinn að hætti Dikembe Mutombo til að toppa það.

Stjörnur og skúrkar

Lore Devos var frábær í liði Hauka í kvöld með 32 stig, átta fráköst og átta stolna bolta. Diamond Battles setti niður fimm þrista í fimm skotum og endaði með 19 stig. Þá var Þóra Kristín Jónsdóttir drjúg á lokasprettinum en hún skoraði tólf stig, allt úr þristum.

Hjá Val var Jiselle Elizabeth Valentine Thomas atkvæðamest með 22 stig en aðrir leikmenn náðu sér tæpast á strik sóknarlega, sérstaklega eftir því sem leið á leikinn. Valur setti aðeins niður fjóra þrista í kvöld í 22 skotum.

Dómararnir

Sigmundur Már Herbertsson, Jakob Árni Ísleifsson og Birgir Örn Hjörvarsson dæmdu leikinn í kvöld. Þeir voru bara fínir held ég. Gáfu Emil auðvitað eina tæknivillu en hvað er það á milli vina?

Stemming og umgjörð

Aftur var ljósasýning og reykvél þegar Haukakonur voru kynntar til leiks. Ágætis mæting í stúkuna og stemmingin til fyrirmyndar. Sérstaklega má þar nefna harðasta stuðningshóp Hauka sem sat fyrir framan blaðamannastúkuna og lét vel í sér heyra. 

Það er nú samt kannski óþarfi að syngja Þursaflokksslagarann „Pínulítill karl“ þegar þú ert ekki sáttur við ákvörðun lágvaxnasta dómarans á vellinum. Smá standard takk.

Viðtöl

Emil Barja: „Þetta virkaði allt vel í seinni hálfleik“

Emil Barja var sáttur í kvöldVísir/Diego

Emil Barja, þjálfari Hauka, var sérstaklega sáttur með seinni hálfleikinn hjá sínum konum í kvöld, þar fóru hlutirnir að smella saman.

„Kannski bara þessi barátta í seinni hálfleik, sem ég óskaði eftir í hálfleik. Við byrjuðum alltof líkt leik tvö. Við viljum setja mikla pressu og viljum vera nálægt. Við vorum kannski aðeins hægar en kannski líka bara þreyta sem segir til sín. Það eru allar smá meiddar, úrslitakeppni og svona. En 20 mínútur í viðbót í seinni hálfleik og bara pínir þig í gegnum þær. Frí á morgun og vonandi bara góðar eftir það.“

Það er gömul klisja segir segir að vörn vinni titla og pressuvörn Hauka var frábær í seinni hálfleik.

„Það var bara akkúrat þetta. Boltapressan, sú sem er með boltann er með þarf að taka ákvörðun og þá eru hinar tilbúnar að stela og koma og „trappa“ og svona. Þetta virkaði allt vel í seinni hálfleik. Virkar oftar í seinni hálfleik þegar önnur lið verða þreytt. Vörnin var fannst mér bara frábær.“

Þegar vörnin small fór sóknin að smella líka og íslensku leikmennirnir komust betur í takt við leikinn.

„Sóknarleikurinn okkar var mjög stífur í fyrri hálfleik. Þetta var svolítið þannig eins og þær tvær ætluðu að fara og gera þetta sjálfur. Auvitað frábærar leikmenn báðar tvær en við erum með frábæra leikmenn í öllum öðrum stöðum. Það var líka eitthvað sem við áttum að gera í seinni hálfleik, láta boltann aðeins ganga og fá fleiri sóknir þar sem boltinn var að ganga og fá þannig körfur.“

Emil ætlar ekki að fagna um of í kvöld og ætlar að halda sínum konum á jörðinni.

„Það er bara niðri á jörðinni. Bara snemma að sofa. Tökum frí á morgun og fylgjumst með Keflavík - Njarðvík leiknum og byrjum bara að undirbúa okkur fyrir næstu seríu.“

Jamil Abiad: „Stelpurnar lögðu sig allar fram og ég get ekki beðið um meira en það“

Jamil Abiad, þjálfari Valsvísir / pawel

Valskonur voru í góðum séns í fyrri hálfleik en áttu erfitt uppdráttar eftir því sem leið á leikinn. Jamil Abiad, þjálfari liðsins, sagði skýringuna fyrst og fremst liggja í töpuðum boltum.

„Fyrst og fremst hversu óstöðugur sóknarleikur okkar var. Hann varð stífur og annað gegnumgangandi vandamál í þessari úrslitakeppninni og megnið af tímabilinu hefur verið tapaðir boltar. Við spilum vel en gefum þeim svo tækifæri til að halda sér inni í leiknum með því að tapa boltanum ítrekað. Við töpuðum 21 bolta í dag sem hjálpaði ekki. Í fjórða leikhluta fóru auðveld sniðskot forgörðum sem hefðu snúið leiknum við. En svona er körfuboltinn, þú munt klikka úr einhverjum skotum. Stelpurnar lögðu sig allar fram og ég get ekki beðið um meira en það.“

Eftir því sem Haukar hækkuðu þrýstinginn í pressuvörn sinni var engu líkara en baráttuþrek Valskvenna gufaði smátt og smátt upp. Jamil sagði það klárlega hafa áhrif að tapa boltanum ítrekað.

„Engin spurning. Nánast hver einasti tapaði bolti í kvöld er í lifandi leik, 16 af 21 eru þannig. Þær nýttu sér það í hvert skipti sem við töpuðum boltanum. Þær skoruðu nánast alltaf eftir stolinn bolta og það dregur mjög úr baráttuþrekinu. Þú vinnur hörðum höndum að því að setja stig á töfluna og færð svo stig beint í andlitið.“

Jamil lítur þó nokkuð sáttur yfir tímabilið svona fljótt á litið.

„Á einum tímapunkti vorum við tvo sigra og átta töp held ég. Það hefði verið auðvelt að leggja árar í bát þá. Stelpurnar mættu á hverjum degi og lögðu inn vinnuna. Við erum kannski ekki hæfileikaríkasta liðið en við erum með gott lið. Markmiðið þetta tímabilið var að bæta sig með hverri æfingunni og hverjum leiknum og stelpurnar tóku allar miklum framförum í vetur. Það var minn stærsti fókus.“

Þannig að ég er mjög ánægður með hvernig þær hafa vaxið sem einstaklingar og við sem lið. Það er í raun það eina sem hægt er að biðja um. Nú byrjar undirbúningstímabilið hjá okkur bara strax enda tekur þú mestum framförum yfir sumarið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira