Sport

Ey­gló Fanndal Evrópu­meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir á verðlaunapallinum á EM í dag.
Íslenska lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir á verðlaunapallinum á EM í dag. Skjámynd/RÚV

Íslenska lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir varð í dag fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í fullorðinsflokki í Ólympískum lyftingum. Þetta afrekaði hún á EM sem fer fram í Chisinau í Moldavíu.

Eygló vann ekki aðeins gull í samanlögðu því hún vann einnig gullverðlaun í jafnhendingu og silfurverðlaun í snörun.

Frammistaða Eyglóar var frábær og hún vann mjög sannfærandi sigur á endanum.

Eygló setti í leiðinni þrjú Íslandsmet og þrjú Norðurlandamet. Hún lyfti samtals 244 kílóum og fagnaði frábærum og sögulegum sigri. Eygló varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna til verðlaun á Evrópumóti í fullorðinsflokki.

Eygló byrjaði að lyfta 103 kílóum í fyrstu lyftu í snörun sem er þyngsta opnunarlyfta hennar á móti. Lyfta hennar var mjög sannfærandi. Eygló lyfti næst 106 kílóum og gerði það einnig afar glæsilega.

Hún hækkaði upp í 109 kíló í lokalyftunni og lyfti henni með sannfærandi hætti. Eygló var því þegar örugg með silfur í snörun og um leið búin að bæta Íslandsmetið um tvö kíló. Zarina Gusalova lyfti hins vegar 110 kílóum og tryggði sér gullið í snörun.

Eygló byrjaði á því að lyfta 129 kílóum í fyrstu lyftu í jafnhendingunni og hún var þar með komin upp í efsta sæti í samanlögðu.

Í annarri lyfti þá reyndi Eygló við 133 kílóum í jafnhendingu og með því að lyfta því jafnaði hún Íslandsmetið.

Þá var pressan á Gusalovu sem reyndi við 134 kíló en tókst ekki að lyfta því. Það þýddi að Eygló var orðin Evrópumeistari þrátt fyrir að eiga eftir síðustu lyftu sína.

Eygló lyfti 135 kílóum í síðustu lyftu og bætti með því tvö Íslandsmet, bæði í jafnhendingu en einnig í samanlögðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×