Upp­gjörið: ÍBV - Víkingur 3-0 | Eyja­menn flugu á­fram

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Oliver Heiðarsson átti flottan leik í liði ÍBV.
Oliver Heiðarsson átti flottan leik í liði ÍBV. vísir/diego

Víkingar fara ekki í úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir afhroð í Vestmannaeyjum. Undanfarin fimm ár hafa Víkingar komist alla leið í úrslit en þeir sáu ekki til sólar í Eyjum í dag.

Leikurinn fór heldur hægt af stað. Bæði lið voru svolítið að koma bara fyrir sig fótunum og viðra fyrir sér andstæðinginn. Það voru Eyjamenn sem áttu fyrsta marktækifæri leiksins en Oliver Heiðarsson náði ekki að koma boltanum á markið.

Bæði lið fengu einhver hálffæri en það voru Eyjamenn sem ógnuðu meira og voru hættulegri aðilinn í fyrri hálfleik. Oliver Heiðarsson var þar manna hættulegastur.

Alex Freyr Hilmarsson komst næst því að skora í fyrri hálfleiknum rétt áður en liðin gengu til búningsklefa þegar hann átti gott skot í teignum sem Ingvar Jónsson sá við. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan markalaus.

Það dró strax til tíðinda í upphafi seinni hálfleiks á 48. mínútu þegar Omar Sowe koma Eyjamönnum yfir eftir góðan undirbúning Olivers Heiðarssonar. Gott samspil sem endaði með góðu marki.

Eyjamenn voru svo aftur á ferðinni sex mínútum síðar. Oliver Heiðarsson kom með fastan bolta fyrir markið sem endaði hjá Alex Freyr Hilmarssyni og átti hann gott skot sem Ingvar Jónsson varði en boltinn féll aftur fyrir Alex Freyr sem lét ekki bjóða sér þetta í þriðja skipti og tvöfaldaði forystu Eyjamanna.

Fjörið var ekki búið þarna því Eyjamenn bættu við þriðja marki sínu á 69. mínútu þegar Omar Sowe stangaði inn fyrirgjöf frá Alex Freyr Hilmarssyni. Eyjamenn léku á alls oddi.

ÍBV fékk vítaspyrnu á 85. mínútu leiksins þegar Víðir Þorvarðarson féll í baráttu við Ingvar Jónsson. Kolröng ákvörðun að því virtist þar sem Ingvar Jónsson var á undan í boltann. Bjarki Björn Gunnarsson fór á punktinn en skaut framhjá markinu.

Það kom þó ekki að sök og Eyjamenn verða í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit eftir frábæran 3-0 sigur gegn Víkingum.

Atvik leiksins

Þegar Omar Sowe kemur Eyjamönnum yfir fannst mér þessi leikur eftir það aldrei vera í neinni hættu.

Stjörnur og skúrkar

Alex Freyr Hilmarsson var frábær í liði Eyjamanna í dag. Mark og stoðsending frá miðjumanninum. Oliver Heiðarsson var einnig mjög öflugur og Víkingar þurftu að hafa mikið fyrir því að eiga við hann. Omar Sowe skoraði tvö mörk í dag og það verður mikilvægt fyrir Eyjamenn að fá hann í gang.

Mér fannst Atli Þór Jónasson ekki nýta tækifærið sitt sérstaklega vel í dag. Það voru þó fleiri en bara hann sem fundu sig ekki í liði Víkinga.

Dómararnir

Twana Khalid Ahmed sá um flautuna í dag og honum til aðstoðar voru Antoníus Bjarki Halldórsson og Guðni Freyr Ingvason. Vítaspyrnan sem er dæmd fannst mér kolröng. Sveinn Gísli heppin að liturinn á spjaldinu var ekki annar. Einstaka atvik sem hægt er að taka fyrir en heilt yfir þá hafði ekkert af þeim úrslitaáhrif.

Stemingin og umgjörð

Það var þokkalegasta mæting hér í Vestmannaeyjum á Þórsvöllinn. Gríðarlega fallegur staður. Þrátt fyrir að sólin hafi látið sjá sig var samt gríðarlega kalt.

Viðtöl

Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings.Vísir/Einar

„Þeir fá páskafríið til þess að hugsa sinn gang“

„Gífurlegt svekkelsi. Við erum bara virkilega svekktir með niðurstöðu leiksins og bara svekktir með okkar frammistöðu“ sagði Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkinga eftir tapið í dag.

„Þetta var alls ekki það sem við settum upp með í leiknum. Við vissum að þessi leikur yrði erfiður. Aðstæður buðu ekki upp á fótbolta sem að við viljum spila. Við vorum klárir og undirbúnir til þes að taka slaginn en í seinni hálfleik þá bara komum við ekki til leiks sem að er mjög svekkjandi“

Víkingar hafa síðustu ár nánast verið áskrifendur af úrslitaleiknum en ljúka leik núna miðjan apríl.

„Það er bara hrikaleg niðurstaða. Við höfum verið mjög sterkir í þessari keppni og verið síðustu fimm skipti í úrslitum. Það er ekki þannig núna og við verðum að horfast í augu við það“

Sölvi Geir vill sjá sína menn svara fyrir þetta með alvöru frammistöðu í næstu leikjum og að menn berjist fyrir sínu sæti.

„Með alvöru frammistöðu og að menn mæti í leikina tilbúnir að berjast fyrir sínu sæti. Það voru bara frammistöður í dag sem að sýndu mér ekki nóg og það verður að vera einhver viðbrögð frá strákunum“

„Þeir fá páskafríið til þess að hugsa sinn gang og ég vill að menn mæti bara aðmennilega í næsta leik“ sagði Sölvi Geir Ottesen að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira