Körfubolti

„Erfitt að spila við þessar að­stæður“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar á hliðarlínunni. 
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar á hliðarlínunni.  Vísir/Jón Gautur

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, var himinlifandi með að fara með sigur af hólmi frá erfiðum útivelli í Skógarselinu í Breiðholti í kvöld en lið hans bar sigurorð af ÍR í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Bónus-deildar karla í körfubolta. Stjarnan er þar með komin í 2-0 en hafa þarf betur í þremur leikjum til þess að fara í undanúrslitin.   

„Aftur var það sterkur varnarleikur okkar sem lagði grunninn að sigrinum og það var í raun og veru sama uppskrift sem varð til þess að við nældum í þennan sigur. Liðið er allt að spila sem einn maður í vörninni og það skilar sér þegar á þennan stað í tímabilinu er komið að spila öfluga vörn,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, sáttur.

„Það er erfitt að spila í þessu andrúmslofti sem verður í þessu íþróttahúsi þegar allt er undir. Það er mikill hávaði hérna og erfitt að eiga samskipti til þess að laga það sem er ekki að ganga nógu vel upp. Af þeim sökum er gott að hafa rútíneraðar vinnureglur í vörninni og sterka karaktera til þess að spila við þessar krefjandi aðstæður,“ sagði Baldur Þór enn fremur.

„Við náðum góðum rytma á báðum endum vallarins og stemmingunni okkar megin um miðjan þriðja leikhluta sem varð til þess að við náðum smá forskoti. Við spiluðum svo sterka vörn út leikinn og svöruðum ávallt þeirra áhlaupum,“ sagði hann.

„Þó svo að við séum að spila vel þá er alltaf eitthvað sem hægt er að bæta. Leikplanið er að ganga vel upp í þessum tveimur fyrstu leikjum en það eru smáatriði hér og þar sem við getum gert betur. Stefnan er að fínpússa það og klára þetta í Garðabænum á föstudaginn,“ sagði þjálfarinn um næstu skref í viðureign liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×