Fótbolti

Fá allir að mæta Arsenal en þrír fengu sekt

Sindri Sverrisson skrifar
Antonio Rüdiger þótti fara yfir strikið með þessum tilburðum sínum og fékk sekt.
Antonio Rüdiger þótti fara yfir strikið með þessum tilburðum sínum og fékk sekt. Getty/Pedro Loureiro

Madridingar anda léttar í aðdraganda einvígisins við Arsenal í Meistaradeild Evrópu, eftir að UEFA ákvað að setja engan af leikmönnum Real Madrid í bann. Þrír þeirra þurfa hins vegar að greiða sekt og tveir fengu skilorðsbundið bann.

Antonio Rüdiger, Kylian Mbappé og Dani Ceballos þurfa að greiða sektir, misháar, vegna hegðunar sinnar eftir að Real Madrid sló út Atlético Madrid í vítaspyrnukeppni og komst í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Þóttu þeir fara yfir strikið í fögnuði sínum á Metropolitano-leikvangi Atlético.

Fyrri leikurinn við Arsenal er næsta þriðjudag og nú er ljóst að enginn leikmannanna sem til rannsóknar voru þarf að taka þar út leikbann. Rüdiger og Mbappé fengu þó eins leiks skilorðsbundið bann en þurfa ekki að taka það út nema að þeir brjóti aftur af sér innan árs.

Auk þeirra þriggja sem nefndir eru hér að ofan var Vinicius Junior einnig til rannsóknar en hann fékk hvorki leikbann né sekt.

Madridingar óttuðust helst að Rüdiger fengi leikbann en hann fékk hæstu sektina, eða 40.000 evrur (um 5,7 milljónir króna), fyrir ógnandi hegðun með því að hafa dregið fingur eftir hálsi sínum líkt og um hótun um að skera einhvern á háls væri að ræða.

Mbappé fékk 30.000 evru sekt (um 4,3 milljónir króna) en hann þótti hafa gripið um millifótakonfekt sitt með vafasömum hætti. Ceballos mun einnig hafa sýnt óæskilega hegðun og hlaut hann 20.000 evru sekt (um 2,9 milljónir króna).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×