Erlent

Segir orkuinnviðasamkomulagið enn í gildi þrátt fyrir stöðugar á­rásir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Peskov sagði Vesturlönd ekki hafa staðið við sitt hvað varðaði Svartahafssamkomulagið.
Peskov sagði Vesturlönd ekki hafa staðið við sitt hvað varðaði Svartahafssamkomulagið. AP/Yury Kochetkov

Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Rússlandi, segir samkomulag um 30 daga bann gegn árásum á orkuinnviði Úkraínu enn í gildi, þrátt fyrir áframhaldandi loftárásir.

Peskov sagði á daglegum blaðamannafundi í morgun að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefði ekki fyrirskipað annað en bæði Rússar og Bandaríkjamenn fylgdust vel með þróun mála.

Rússar og Úkraínumenn hafa skipst á skotum frá því að umrætt bann tók gildi en Rússar sendu meðal annars nærri hundrað dróna yfir til Úkraínu í nótt, á meðan Úkraínumenn greindu frá því að þeir hefðu eyðilagt fjórar herþyrlur í Belgorod í Rússlandi með Himars eldflaugum frá Bandaríkjunum.

Peskov sagði á fundinum í morgun að stjórnvöld í Moskvu og Washington deildu þeirri afstöðu að nauðsynlegt væri að þoka málum í samkomulagsátt til að binda enda á átökin í Úkraínu.

Margt væri hins vegar enn óútkljáð en ljóst er að langt er á milli stjórnvalda í Rússlandi og Úkraínu varðandi þær kröfur sem aðilar hafa sett fram sem forsendur fyrir friði.

Viðræður standa yfir á milli samningamanna Bandaríkjanna og Úkraínu og Rússlands í Ríad í Sádi-Arabíu. Úkraínumenn og Rússar munu ekki funda en Bandaríkjamenn eiga milligöngu og funda með aðilum til skiptis.

Til umræðu verður meðal annars svokallað Svartahafssamkomulag, sem gerði Úkraínumönnum kleift að flytja kornvörur úr landinu, gegn því að innkaupabanni á rússneskum kornvörum yrði aflétt.

Rússar drógu sig úr samkomulaginu ári síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×